Jól

Jólastemning í Árbæjarsafni

Einn af hápunktum jóladagskrár Árbæjarsafns er þegar dansað er í kringum jólatréð.
Einn af hápunktum jóladagskrár Árbæjarsafns er þegar dansað er í kringum jólatréð. Mynd/Árbæjarsafn
Árbæjarsafnið stendur fyrir jóladagskrá sunnudagana fram að jólum. Þá geta ungir sem aldnir rölt á milli húsa og fylgst með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla daga.

Við tókum á móti sex hundruð gestum síðastliðinn sunnudag og reynslan hefur sýnt okkur að gestum fjölgar þessar helgar fram að jólum,“ segir Guðrún Helga Stefáns­dóttir, kynningarstjóri Árbæjarsafnsins, en hún býst við að gestir geti, þegar mest er, orðið rúmlega þúsund.

„Það er orðinn fastur liður hjá mörgum fjölskyldum að heimsækja okkur á aðventunni. Ekki síst eru ömmur og afar dugleg að koma með barnabörnin enda geta þau sjálf greint frá eigin reynslu af jólunum í gamla daga,“ segir Guðrún.

Ýmislegt skemmtilegt er í boði. Í Árbænum sitja fullorðnir og börn með vasahnífa og skera út laufabrauð en uppi á baðstofulofti verður spunnið og prjónað. Þar verður jólatré ­einnig vafið lyngi.

Mynd/Vilhelm
„Í Kornhúsinu fá börn og fullorðnir að föndra, búa til músastiga, jólapoka og sitthvað fleira sem þykir mjög skemmtilegt,“ segir Guðrún. Í Hábæ verður hangikjöt í potti og gestum boðið að bragða á nýsoðnu keti. Í Nýlendu verður hægt að fylgjast með tréútskurði og í Miðhúsum verður hægt að fá prentaða jólakveðju. Í hesthúsinu frá Garðastræti er sýnt hvernig fólk bjó til tólgarkerti og kóngakerti í gamla daga. Jólahald heldra fólks við upphaf 20. aldar er sýnt í Suðurgötu 7.

„Svo er Krambúðin að sjálfsögðu opin og þar er til sölu kóngabrjóstsykur sem mér skilst að sé annars ófáanlegur,“ segir Guðrún og mælir einnig með að fólk setjist inn í Dillons­hús og gæði sér á heitu kakói.

Hrekkjóttir jólasveinar leika stórt hlutverk í jólagleðinni þar sem þeir gægjast á glugga og dansa í kringum jólatréð á torginu.

Mynd/Vilhelm
Sunnudaginn 13. desember kl 13 til 17

14.00 Guðsþjónusta í safnkirkjunni. 

13.30 og 14.30 Hugljúfir jólatónleikar í Lækjargötu með dúettinum Stjörnubjart. 

15.00 Jólatrésskemmtun á torginu. 

14.00-16.00 Jólasveinar, þessir gömlu íslensku, verða á vappi um safnsvæðið.

Sunnudaginn 20. desember kl. 13 til 17

14.00 Guðsþjónusta í safnkirkjunni. 

14.30 Jólatónleikar með Huga Jónssyni og Kára Allonssyni í safnkirkjunni. 

15.00 Jólatrésskemmtun á torginu. 14.00-16.00 Jólasveinar verða á vappi um safnsvæðið.

Aðgangseyrir er 1.400 kr. fyrir fullorðna en ókeypis er fyrir börn 18 ára og yngri, ellilífeyrisþega (70+) og öryrkja.






×