Innlent

Má ekki vera matskennt hver á að fara í fangelsi og hver ekki

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Páll fangelsismálastjóri segir að vanda þurfi tillögur á borð við þá sem Björt kom með í morgun.
Páll fangelsismálastjóri segir að vanda þurfi tillögur á borð við þá sem Björt kom með í morgun. Vísir/Anton
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að mikilvægt sé að tryggja að skýrar reglur gildi um hverjir eiga að sitja inni í fangelsi, verði hugmyndir Bjartrar Ólafsdóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar, um að þeir afbrotamenn sem ekki séu taldir hættulegir séu ekki látnir sitja inni í fangelsi skoðaðar frekar.

Björt ræddi fangelsismál í Föstudagsviðtalinu.Vísir/Anton
„Það er ákaflega mikilvægt að leikreglurnar, ef menn ákveða að gera þetta, séu afdráttarlausar,“ segir Páll aðspurður um tillöguna. „Það má ekki vera mikið um matskennd úrræði í þessu þannig að það sé undir til að mynda fangelsismálastofnun komið hvort menn teljast hættulegir eða ekki hættulegir eða æskilegir til að loka inni og svo framvegis.“

„Það elur á tortryggni og vantrú á kerfið,“ segir Páll sem er nokkuð afdráttarlaus.

Björt ræddi þessar hugmyndir í Föstudagsviðtalinu í Fréttablaðinu og hér á Vísi í morgun. Þar velti hún því fyrir sér hvort ekki væri hægt að finna aðrar leiðir fyrir menn sem ekki eru hættulegir umhverfi sínu til að taka út dóma sína.

Páll segist ekki geta metið hvaða áhrif það hefði á stöðu fangelsismála en ítrekar að vanda þurfi til verka við undirbúning tillagna á borð við þessar. „Ef menn ætla að gera þetta þá vonast ég til að menn vandi til verka svo þetta veki ekki tortryggni,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Bankamenn eiga ekki að vera í fangelsi

Björt Ólafsdóttir segir stöðu Bjartrar framtíðar vera umhugsunarefni. Hún telur þó ólíklegt að flokkurinn sé að þurrkast út, þau séu að vinna sína vinnu vel en þurfi ef til vill að láta meira í sér heyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×