Erlent

Donald Trump kallar yfir sig reiði Anonymous

Bjarki Ármannsson skrifar
Trump er ekki í náðinni hjá tölvuþrjótunum í Anonymous.
Trump er ekki í náðinni hjá tölvuþrjótunum í Anonymous. Vísir/AFP
Tölvuþrjótahópurinn Anonymous, sem nýlega stóð fyrir tölvuárásum á íslenskar vefsíður vegna stuðnings Íslands við hvalveiðar, hefur fundið sér nýtt skotmark. Það er Donald Trump, bandaríski auðkýfingurinn og forsetaframbjóðandinn, en ummæli Trump um að hann hyggist meina múslimum aðgöngu inn í landið slógu ekki í gegn hjá tölvuþrjótunum.

Samtökin segjast á Twitter hafa tekið niður vefsíðu Trump Tower-byggingarinnar, sem síðar hefur komist aftur í gagnið samkvæmt erlendum fjölmiðlum en virðist liggja aftur niðri þegar þetta er skrifað. Þá hafa samtökin sent frá sér myndband á YouTube þar sem þau segja Trump að gæta orða sinna í framtíðinni.

„Donald Trump, okkur hefur borist til eyrna að þú viljir banna öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna,“ segir í myndbandinu. „Þetta er það sem ISIS vill. Því fleiri múslimar sem eru óánægðir, því betri möguleika finnst ISIS það eiga á að fá þá til liðs við sig.“

Anonymous lýsti fyrir stuttu yfir stríði gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkið, eða ISIS, og hét því að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir gegn þeim.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×