Fótbolti

Ísland-Portúgal einn af áhugaverðustu leikjunum í riðlakeppni EM 2016 að mati Telegraph

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku strákarnir mæta Portúgal í fyrsta leik sínum á stórmóti.
Íslensku strákarnir mæta Portúgal í fyrsta leik sínum á stórmóti. vísir/getty
Eins og alþjóð veit var dregið í riðla fyrir EM 2016 í Frakklandi í gær. Ísland var í fyrsta skipti í pottinum og dróst í riðil með Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi.

Leikið er í sex fjögurra liða riðlum en þetta verður fyrsta Evrópumótið þar sem þátttökuliðin eru 24.

Í tilefni af drættinum valdi Telegraph 10 áhugaverðustu leiki riðlakeppninnar á EM 2016.

Ísland er á þessum lista en leikur íslensku strákanna við Cristiano Ronaldo og félaga 14. júní í Saint-Etienne er meðal þeirra 10 leikja í riðlakeppninni sem þú mátt ekki missa af að mati Telegraph.

Þetta verður fyrsti leikur íslenska liðsins á stórmóti frá upphafi og mun eflaust hafa mikið að segja um framhaldið á EM.

Sjá einnig: Þjóðin sátt á Twitter: „Draumariðill sem við vinnum“

Í umsögn Telegraph segir að Ísland hafi gert frábærlega að komast á EM og miðað við dráttinn í gær eigi liðið möguleika á að komast í 16-liða úrslit.

Meðal annarra leikja á blaði hjá Telegraph er leikur Gareth Bale og félaga í Wales á móti Englandi; leikur Þýskalands og Póllands og leikur Albaníu og Sviss þar sem bræður munu væntanlega mætast (Taulant og Granit Xhaka).

Tíu leikir sem þú mátt ekki missa af í riðlakeppni EM 2016 að mati Telegraph:

Albanía-Sviss (A-riðill) - 11. júní, Lens

Tyrkland-Króatía (D-riðill) - 12. júní, París

Írland-Svíþjóð (E-riðill) - 13. júní, París

Belgía-Ítalía (E-riðill) - 13. júní, Lyon

Portúgal-Ísland (F-riðill) - 14. júní, Saint-Etienne

Þýskaland-Pólland (C-riðill) - 16. júní, París

England-Wales (B-riðill) - 16. júní, Lens

Sviss-Frakkland (A-riðill) - 19. júní, Lille

Norður-Írland-Þýskaland (C-riðill) - 21. júní, París

Króatía-Spánn (D-riðill) - 21. júní, Bordeaux




Fleiri fréttir

Sjá meira


×