Skoðun

Forréttindi mín sem karlmaður

Atli Jasonarson skrifar
Ég er frekar smeykur við að birta þennan pistil vegna þess að ég hef séð fólk (oftast karla) reyna að tjá sig um þessi mál en verða fyrir harðri gagnrýni og nánast því sem mætti kalla þöggun.

Mig grunar að einhverjir muni taka illa í þennan pistil og líklega munu sumir lesa úr honum eitthvað allt annað en það sem ég hef raunverulega ritað. Það verður þá bara að hafa það en endilega lesið hann til enda áður en þið hellið á mig úr skálum reiðinnar.

Ókei.

Ég er karl. Samkvæmt mörgum veitir það eitt og sér mér forréttindi og ef ég neita því er ég kallaður forréttindablindur. Ef ég held því fram að fullkomnu jafnrétti hafi verið náð er ansi líklegt að margir myndu andmæla því og skamma mig.

Og það er líka frábært, enda væri fráleitt að halda því fram að jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Við höfum vissulega komist langt en við eigum mikið verk fyrir höndum, því enn eimir eftir af hinu svokallaða feðraveldi. Þetta veldur því að karlar hafa enn mikil forréttindi hérlendis, sem og annars staðar. Og þetta vita allir, sama hvort þeir viðurkenni það eða ekki.

Mig langar að nefna ykkur sjö dæmi um mín forréttindi, sem ég hef kyns míns vegna.

1) Sem karl er ég næstum því fjórum sinnum líklegri en vinkonur mínar til þess að drepa mig. Á árunum 2005-2009 tóku 159 karlar eigið líf en konurnar voru 45. Meira en þrjú sjálfsmorð af hverjum fjórum eru framin af karlmönnum.

2) Það er einnig líklegra að einhver annar drepi mig. Á árunum 1981-2009 voru 60 morð framin á Íslandi. Af öllum fórnarlömbunum voru 44 þeirra karlkyns, eða um 73%.

3) Það er rúmlega tvisvar sinnum líklegra að ég, sem karl, látist í umferðarslysi. Á árunum 2000-2009 létust 180 manns í umferðinni hérlendis. Af þeim voru 124, rúmlega 2/3, karlkyns.

4) Sem karl er líklegra að ég deyi af völdum efnafíknar og/eða misnotkunar á áfengi. Árin 2005-2009 létust 24 einstaklingar af þessum orsökum. Af þeim var 21 karlkyns.

5) Ég, sem karl, er tuttugu og sex sinnum líklegri til þess að fara í fangelsi en systur mínar. Nýjustu tölur Hagstofunnar um fjölda fanga hérlendis eru frá 2013: karlar voru þá 130 talsins og konurnar 5. Rúm 96% fanga á Íslandi eru því karlar.

6) Það er einnig líklegra að systur mínar ljúki háskólanámi en ég. Á Íslandi eru 27.400 karlar með háskólamenntun en konurnar eru 36.600, eða um þriðjungi fleiri. Þessi munur mun líklega verða meiri með árunum en árið 2013 voru u.þ.b. 62% háskólanema kvenkyns. Það eru næstum því tvær konur á móti hverjum karli, sem kristallast í þeirri staðreynd að árið 2013 útskrifuðust 2556 konur en einungis 1389 karlar.

7) Sem karl get ég talist heppinn að vera ekki slakur í lestri. Af þeim nemendum, sem taldir voru slæmir í lestri árið 2009, voru 70% drengir auk þess sem stúlkur standa sig iðulega betur í samræmdu prófunum.

Ég skil þetta ekki.

Hvers vegna falla svona miklu fleiri karlar en konur fyrir eigin hendi, eða þá annarra? Af hverju leiðir fíkn frekar karla til dauða en konur? Hvernig stendur á því að konur standa sig mun betur í skóla en karlar? Af hverju eru fangar hérlendis nánast einungis karlkyns?

Ég veit það svo sem ekki en mér þykir ekkert ólíklegt að þetta spili allt saman að einhverju leyti.

Nokkrar ástæður geta legið að baki þeirri staðreynd að langtum fleiri karlar eru í fangelsi en konur. Kannski fremja þeir fleiri og/eða verri glæpi. Kannski hljóta þeir þyngri dóma eða kannski eru þeir einfaldlega frekar sendir í fangelsi en konur. Ef til vill á þetta allt við – ég veit það ekki – en ljóst er að þarna leynist eitthvert rótgróið vandamál. Það er ekkert eðlilegt við það að karlar eru rúm 96% fanga.

Sennilega má útskýra þetta með þeim samfélagslegu aðstæðum sem karlar virðast frekar lenda í en konur. Þeir standa sig ekki jafnvel í skóla og eru minnihluti nemenda í háskólanámi. Þeir lenda frekar í fangelsi og láta lífið vegna fíknar. Þeir deyja oftar í umferðinni. Þeir fremja frekar sjálfsmorð og eru oftar myrtir.

Vandamálið er að karlar lenda í þessum samfélagslegu aðstæðum.

Það að ég kjósi að rita um vandamál karla þýðir ekki að ég sé að gera lítið úr vandamálum kvenna eða að segja að karlar njóti ekki einhverra raunverulegra forréttinda. Alls ekki. Ég er einungis að benda á að vandamál karla virðast einnig vera rótgróin og kerfisbundin, eins og svo mörg vandamál sem konur, sem hópur, þurfa að glíma við. Líklega eru þessi vandamál að miklu leyti annars eðlis en kvenkynið glímir við en þau eru einnig alvarleg.

Umræðan um vandamál karla er varla til staðar. Oft hef ég séð fólk (helst karla) reyna að vekja athygli á þeim en því er þá ósjaldan svarað á þann veginn að karlarnir hafi svo mikil forréttindi að þeir eigi ekkert að vera að væla.

Þessi umræða er nefnilega ekki vinsæl. Í dag er vinsælt að tala um vandamál kvenna, sem er auðvitað frábært því þau þarf að leysa, en það þýðir ekki að ekki megi tala um vandamál karla. Við erum ekki í tveimur liðum, karlar á móti konum.

Ég held að vandamálin sem ég taldi upp hér að framan verði ekki leyst með Twitter-byltingu, því miður. Líklega þarf eitthvert stórfellt átak sem krefst samvinnu allra.

En hey, það gerist allavega ekkert ef við tölum ekki um hlutina.

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Atla en er birtur á Vísi með góðfúslegu leyfi hans.


 




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×