Jól

Skrautskrifar jólakortin af natni

Elín Albertsdóttir skrifar
Filippía skrautskrifar fallegan texta á kort.
Filippía skrautskrifar fallegan texta á kort. MYND/GVA
Filippía rammar inn frumritin með textunum. MYND/GVA
Filippía Guðbrandsdóttir, geislafræðingur og skrautskrifari, býr til falleg kort með áletrunum eftir okkar frægustu skáld. Kortin er hægt að ramma inn. Filippía býr sömuleiðis til handmáluð og skrautskrifuð jólakort til vina og ættingja.



Filippía segist finna ljóð og texta til að rita á kort. Sumt þarf hún að fá leyfi til að nota sem hefur verið auðsótt. Annað þarf að greiða eigendum höfundarréttar fyrir notkunina.

„Ég fékk leyfi til að nota meðal annars texta Davíðs Stefánssonar og Halldórs Laxness. Höfundaréttur erfingja fellur niður sjötíu árum eftir lát skáldsins svo ég get notað texta að vild þar sem það á við. Þessi kort með áletrun geta hentað við ýmis tækifæri, sem samúðarkveðja eða falleg orð til brúðhjóna. Fólk les oft mismunandi þýðingu út úr texta. Ég skrautskrifa texta, mála myndir með og læt síðan prenta kortin,“ segir Filippía sem hefur skrautritað frá unga aldri. „Vinir og vandamenn hafa leitað til mín í gegnum árin og sumir óskað eftir ákveðnum texta.“

Fallega skrifaður texti eftir þekkt íslensk skáld. MYND/GVA
Faðir Filippíu, Guðbrandur Magnússon, var þekktur skrautskrifari. „Hann starfaði við að skrautskrifa fyrir alls kyns fyrirtæki, meðal annars forsetaembættið. „Pabbi lést 1994 og í minningu hans fór ég að skrautskrifa jólakort til fjölskyldu og vina. Ég var eiginlega bara að dunda við þetta í rólegheitum að gera svona kort. Þegar frá leið fór ég með þetta í prentsmiðju en þá átti ég orðið allnokkur skjöl. Ég skrautskrifa á sérstakan pappír og nota alltaf sama pennann. Mig langaði alltaf að fara í Myndlista- og handíðaskólann en það varð ekki úr því. Valdi mér allt annað nám og fór í heilbrigðis­geirann þar sem ég starfaði í 35 ár. Núna er ég hætt að vinna og hef meiri tíma fyrir handverkið,“ segir hún.

 

„Móðir mín var líka listhneigð og föðursystir mín var kjólameistari þannig að handverk er mikið í báðum ættum mínum. Pabbi var sömuleiðis mjög flinkur bókbindari. Ég var ekki nema fjögurra til fimm ára gömul þegar ég fór að sýna því áhuga sem pabbi var að fást við. Ég settist oft á móti honum við skrifborðið og hann rétti mér penna. Ég hef skrautritað á bækur og skjöl. Ég hef fengið mörg skemmtileg verkefni á borðið mitt tengd fermingum og brúðkaupum. Ég vann lengi fyrir blómabúð og sá um útfararskreytingar. Það hefur þó minnkað að óska sé eftir handskrift skrautskrifara þar sem fólk er farið að láta prenta á borða,“ segir Filippía.



Hún segist vera hætt að gera jólakortin um hver jól enda sé töluvert dýrt að láta prenta þau. „Ég er þó byrjuð að leggja drög að jólakortum núna. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt þótt það sé heilmikil vinna í kringum þetta. Ég er jólabarn í mér og finnst gaman að hafa jólaljós í kringum mig. Ég er löngu búin að setja ljós hér fyrir utan og ætla að leyfa þeim að lifa fram á vor.“ 






×