Erlent

Sögulegar kosningar í Sádí-Arabíu: Konur í fyrsta sinn kjörnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tuttugu konur voru kjörnar í sögulegum sveitarstjórnarkosningum í Sádí-Arabíu sem fram fóru um helgina.
Tuttugu konur voru kjörnar í sögulegum sveitarstjórnarkosningum í Sádí-Arabíu sem fram fóru um helgina. Vísir/Getty

Tuttugu konur voru kjörnar í sveitarstjórnarkosningum í Sádi-Arabíu sem fram fóru um helgina. Þetta var í fyrsta sinn sem konur fengu að bjóða sig fram í kosningum í sögu Sádí-Arabíu.

Konurnar sem kjörnar voru koma víðsvegar af, allt frá Ryiadh, stærstu borgar landsins til lítils þorps í nágrenni Mekka.

Þrátt fyrir að konurnar sem kjörnar muni aðeins setjast í eitt prósent þeirra 2.100 sæta sem í boði voru í kosningunum er litið á kosningu þeirra sem skref fram á við í réttindabaráttu kvenna í landi sem hingað til hefur algjörlega lokað á stjórnmálaþáttöku þeirra.

Ekki er þó allt unnið enn enda hallar mjög á konur í Sádí-Arabíu, þær mega ekki keyra bíl og lög tryggja karlmönnum í landinu mikil yfirráð yfir konum og lífi þeirra.

Konur nýttu sér óspart kraft samfélagsmiðlanna í kosningabaráttunni. Vísir/Getty

Konungur Sádí-Arabíu mun einnig skipa í 1.050 sæti til viðbótar og gæti hann nýtt vald sitt til þess að tryggja það að fleiri konur fái sæti að borðinu. Um 7.000 frambjóðendur buðu sig fram, þar af 979 konur, til sætis í sveitarstjórnarkosningunum sem eru einu kosningarnar sem fara fram meðal almennings í Sádí-Arabíu.

Konur nýttu sér kraft samfélagsmiðla
Flestar konur voru kjörnar í hinni íhaldssömu höfuðborg Sádí-Arabíu, Riyadh. Þar voru fjórar konur kosnar. Tvær konur voru kosnar í Jeddah sem þykir vera frjálslyndasta borg ríkisins og ein var kosin í Medínu þar sem Múhammed spámaður byggði sína fyrstu mosku.

Helsta kosningaloforð flestra kvenna sem buðu sig fram var að bjóða upp á betri dagheimili fyrir börn svo að konur ætti auðveldara með að taka þátt í vinnumarkaðinum auk þess sem þær lögðu áherslu á umhverfisvænari borgir.

Konurnar nýttu sér óspart kraft samfélagsmiðlana til að koma sér á framfæri enda eru í gildi lög sem banna konum og körlum að blanda geði á almenningsstöðum. Kosningaþáttaka kvenna var mjög mikil en af þeim 130.000 konum sem skráðu sig til þáttöku kusu 106.000.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.