Innlent

Pirringurinn meðal annars vegna óvenju langra umræðna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Nokkur ófriður hefur ríkt á Alþingi í annarri umræðu fjárlaga næsta árs, sem nú hefur tekið um sextíu klukkustundir. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir það meðal annars vegna óvenju langra umræðna.

„Kannski fyrst og fremst einkennist það af löngum umræðum um fjárlögin, miklu lengri en við höfum vanist. Það setur auðvitað mikinn svip á þetta. Það hafa verið næturfundir, það var fundur síðastliðinn laugardag og á föstudagskvöldið. Allt er þetta óvanalegt. En líka er það óvanalegt að önnur umræða fjárlaga taki svona langan tíma,” sagði Einar í kvöldfréttum Stöðvar 2.



Sjá einnig: Segir þinginu stjórnað af nátttröllum


„Ég held það sé skilningur á því að að lokum þurfa menn að afgreiða fjárlögin, fjárlagatengd mál, tekjustofna, mál sem lúta að dagsetningum og öðru slíku. Um það hefur alltaf verið algengur skilningur í þinginu og ég á ekki von á því að það verði neitt öðruvísi núna. En þau mál að öðru leyti sem hafa verið undir eru ekkert það mörg,og miklu færri en ég hef séð.”

Þá sagði hann ekki hægt að útiloka það að umræðunum verði framhaldið á milli jóla og nýárs. „Það er ekkert hægt að útiloka það á meðan það er óvissa um það hvenær annarri umræðu um fjárlög lýkur. En það eru allar forsendur fyrir því að við getum lokið þessu fyrir jól,” sagði Einar.

Sjá einnig: „Mig langaði oft ekki í vinnuna“

Þingmenn hafa kvartað undan hver öðrum við forseta Alþingis. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist á þingi í dag nánast hafa þurft á áfallahjálp að halda vegna dónaskapar Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, á meðan hún sat við hliðina á honum á síðasta þingi. Jón fór í kjölfarið fram á að forsætisnefnd þingsins myndi rannsaka ummæli hennar. Þá sagði Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ástandið í þinginu forystu þess til skammar og líkti forsetum þingsins við nátttröll.

Viðtalið við Einar K. Guðfinnsson má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×