Enski boltinn

Mourinho rekinn frá Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgerisson skrifar
Mourinho stígur úr stjórastólnum.
Mourinho stígur úr stjórastólnum. Vísir/Getty
Franskir og enskir fjölmiðlar fullyrða að Jose Mourinho hafi verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri Engladsmeistara Chelsea.

Franski fréttavefurinn Info Sport Plus greindi frá þessu fyrst en enskir fjölmiðlar, eins og BBC og Daily Mail, staðfesti það stuttu síðar.

Uppfært 15.19: Chelsea hefur nú staðfest á heimasíðu sinni að Mourinho sé hættur og fullyrða að það hafi verið sameiginleg ákvörðun aðila. „Félagið vill gera öllum ljóst að Jose fer frá okkur í góðu og verður ávallt í miklum metum hjá Chelsea,“ segir í yfirlýsingunni.

Mourinho skrifaði undir nýjan samning við Chelsea fyrir aðeins fjórum mánuðum síðan og samkvæmt enskum fjölmiðlum þarf félagið að greiða honum 40 milljónir punda, jafnvirði 7,8 milljarða króna, við uppsögnina.

Sjá einnig: Stjórn Chelsea á neyðarfund vegna Mourinho

Ekkert hefur gengið hjá Chelsea í ár en Englandsmeistararnir hafa unnið fjóra af sextán leiki sína til þessa á tímabilinu og er aðeins einu stigi frá fallsæti.

Mourinho gerði Chelsea að Englandsmeisturunum fyrir aðeins sjö mánuðum síðan en Chelsea endaði með átta stiga forystu á næsta lið. Lokaleikur hans með liðið var á mánudagskvöldið er liðið tapaði fyrir Leicester, 2-1.

Eva Carneiro hleypur inn á völlinn þegar Eden Hazard meiðist gegn Swansea þann 8. ágúst. Mourinho trylltist vegna þessa og úr varð mikið fjölmiðlafár.Vísir/Getty
Eftir leikinn gagnrýndi Mourinho leikmenn sína harkalega og sagði að þeir hefðu með frammistöðu sinni í leiknum svikið sig. Síðustu daga hefur verið fullyrt í enskum miðlum að Mourinho hafi að undanförnu misst traust leikmanna sinna.

Sjá einnig: Sjáðu umdeilt viðtal við Mourinho

Tímabilið byrjaði illa strax í haust og deilur hans við lækna liðsins, allra helst Evu Carneiro, voru afar áberandi í fjölmiðlum strax í ágúst. Engu að síður hélt Roman Abramovich, eigandi Chelsea, og stjórn félagsins, tryggð við Mourinho en hún er nú á þrotum.

Sjá einnig: Chelsea segist vera með rétta knattspyrnustjórann

Samkvæmt BBC þykja þeir Pep Guardiola, Guus Hiddink, Brendan Rodgers og Juande Ramos líklegastir til að taka við starfinu.

Mourinho tapaði fyrir Leicester, 2-1, í sínum síðasta leik með Chelsea.Vísir/Getty
Mourinho stýrði Chelsea fyrst frá 2004-2007 og vann þá tvo Englandsmeistaratitla með félaginu. Hann sneri svo aftur til Lundúna 2013 og vann þriðja titilinn nú í vor, sem fyrr segir.

Sjá einnig: Mourinho: Ég er rétti maðurin fyrir starfið

Chelsea er þrátt fyrir allt komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið mun mæta franska stórliðinu PSG í febrúar og mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×