Fótbolti

KSÍ hefur ekki haft samband við Diego

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Diego Johannesson.
Diego Johannesson. Mynd/Heimasíða Real Oviedo
Diego Johannesson er í ítarlegu viðtali á mbl.is í dag en þar segir hann að hann dreymi enn um að spila fyrir íslenska landsliðið.

Diego er 22 ára hægri bakvörður sem spilar með nýliðum Real Oviedo í spænsku B-deildinni.

Hann á íslenskan föður og því gjaldgengur í íslenska landsliðið. Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, sagði á dögunum að hann hefði skoðað upptökur af leikjum Diego.

Sjá einnig: Útilokar ekki Diego í íslenska landsliðið

„Að sjálfsögðu myndi ég vilja spila fyrir íslenska landsliðið og það er eitthvað sem ég stefni að,“ sagði Diego í viðtalinu við mbl.is.

„Nú er ég hins vegar með hugann við að bæta mig og sýna hvað ég get svo ég fái kannski tækifæri á að spila, sem væri auðvitað frábært. Knattspyrnusambandið hefur samt ekkert haft samband við mig.“

Fótbolti.net greindi fyrst frá því að Real Oviedo ætti íslenskan leikmann í sínu liði en Diego sagði þá að hann stefndi að því að komast í íslenska liðið.

„Núna er ég ekki að hugsa um hvort það sé raunhæft eða ekk en það getur verið að það sé raunhæft, ég bara hef ekki hugmynd um það.“

Ísland á næst vináttulandsleiki á opinberum leikdögum FIFA í mars og kemur þá fyrst til greina að kalla Diego í landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×