Erlent

Kúrdar brutu stóra sókn ISIS á bak aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimur Peshmergasveitanna á varðbergi við Mosul.
Meðlimur Peshmergasveitanna á varðbergi við Mosul. Vísir/AFP
Peshmergasveitir Kúrda brutu í gær stóra árás Íslamska ríkisins nærri Mosul á bak aftur. Minnst 300 þungvopnaðir vígamenn réðust á víglínur Kúrda á minnst fjórum stöðum og hófst árásin á miðvikudaginn. Bandaríkin komu Kúrdum til hjálpar og gerðu loftárásir í 17 klukkustundir. Talið er að um 180 vígamenn ISIS hafi verið felldir í loftárásunum og Kúrdar segjast einnig hafa fellt fjölda vígamanna.

Við árásirnar notuðust vígamennirnir við bílsprengjur, vélbyssur, sprengjuvörpur og brynvarðar jarðýtur, samkvæmt frétt Washington Post. Kúrdar segja að tugir hafi fallið þeirra megin.

Kúrdar hafa setið um Mosul um nokkurt skeið. Þeir vilja þó ekki reyna að frelsa borgina þar sem ekki er víst að heimamenn myndu taka Kúrdum fagnandi. Því ætla Írakar að safna liði Íraka við borgina sem eiga að ná henni aftur, en ISIS hertóku Mosul í leiftursókn sinni í fyrrasumar. Fyrst vilja Írakar þá ná borginni Ramadi.

Þá hafa tyrkneskir hermenn einnig haldið til fyrir utan borgina þar sem þeir hafa þjálfað íraska Kúrda. Vera þeirra þar hefur reitt yfirvöldí Bagdad til reiði.

Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hitti leiðtoga Kúrda í Írak í Irbil í gær. Hann sagði að árásin hefði sýnt getu Peshmerga sveitanna og þá sérstaklega þegar þær eru studdar af loftárásum. Embættismenn Kúrda sem Carter ræddi við fóru fram á frekari sendingar af vopnum og búnaði eins og brynvörðum bílum og nætursjónaukum frá Bandaríkjunum.

Carter sagðist ætla að sjá til þess að vopnasendingum yrði flýtt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×