Enski boltinn

Kominn til að vera en var látinn fara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jose Mourinho er horfinn á braut.
Jose Mourinho er horfinn á braut. vísir/getty
José Mourinho var rekinn öðru sinni frá Chelsea á fimmtudaginn. Eftir níu tapleiki í ensku úrvalsdeildinni og þá staðreynd að ríkjandi meistararnir eru í 16. sæti með aðeins 15 stig gafst Roman Abramovich, eigandi félagsins, upp og rak sinn uppáhaldsmann.

Endurkoma Mourinhos gekk fullkomlega fyrstu tvö tímabilin en fyrri hluti þessa vetrar var kata­strófa frá fyrsta leik þegar hann gagnrýndi lækninn Evu Carneiro með þeim afleiðingum að hún hætti.

Eins og stundum áður missti Mourinho klefann en leikmenn sem spiluðu eins og algjörar hetjur á síðasta tímabili virðast ekki hafa nokkurn áhuga á að spila fyrir Portúgalann í ár. „Svo virtist vera að það hafi verið áþreifanlegur ágreiningur á milli Mourinhos og leikmannanna. Við töldum að það væri tímabært að grípa til aðgerða,“ sagði Michael Emanalo, yfirmaður tæknimála hjá Chelsea, um brottreksturinn því auðvitað tjáir Abramovich sig ekkert frekar en fyrri daginn.

Úr hetju í skúrk

Stuðningsmenn Chelsea réðu sér vart fyrir kæti þegar José Mourinho var endurráðinn knattspyrnustjóri félagsins sumarið 2013. Hann eyddi reyndar fyrsta tímabilinu í að tala liðið niður og sagði það ekki geta orðið meistara en lofaði Englandsmeistaratitlinum 2015. Það gekk allt upp.

Nú, aðeins rétt rúmu hálfu ári síðar, er hetjan á Brúnni orðin skúrkurinn enda liðið búið að tapa níu leikjum í ensku úrvalsdeildinni og er aðeins tveimur stigum frá falli en fimmtán stigum frá sæti í Meistaradeildinni. Svo virðist sem eini möguleiki Chelsea á að komast í Meistaradeildina að ári sé að vinna hana á þessu ári.

Til að setja þessi níu töp í samhengi þá tapaði Mourinho aðeins tíu leikjum í heild sinni í fyrri stjóra­tíð sinni hjá Chelsea sem var rétt rúm þrjú tímabil. Hann tapaði svo bara átta leikjum með Inter og aðeins ellefu á þremur árum í deild með Real Madrid.

Læknirinn út

Mourinho hefur verið að sumu leyti stórfurðulegur á þessu tímabili og blaðamannafundirnir skrítnari en oft áður. Þó mjög skemmtilegir eins og vanalega þegar Mourinho á hlut að máli.

Vitleysan á þessu tímabili hófst strax í fyrsta leik þar sem liðið gerði jafntefli við Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Swansea. Undir lok leiksins stökk læknirinn Eva Carneiro inn á völlinn í „leyfisleysi“ af hálfu Mourinhos til að hlúa að Eden Hazard. Chelsea var þá þegar búið að missa mann af velli og var að verja stigið. Þar sem Carneiro fór inn á þurfti Hazard að fylgja henni út af og þar með voru Chelsea-menn níu inni á vellinum um stund.

Mourinho trompaðist og gagnrýndi Carneiro opinberlega. Hann tók hana úr starfsliðinu á leikdegi og lét hana dúsa á æfingasvæðinu áður en hún gafst upp, hætti og kærði Chelsea. Málið verður tekið fyrir á næsta ári og gæti farið svo að Chelsea þurfi að greiða Evu miskabætur.

Þetta var erfitt tímabil fyrir Portúgalann.vísir/getty
Ábyrgð leikmanna?

Mourinho á oft í miklu haltu mér slepptu mér sambandi við leikmenn sína. Þeir annaðhvort elska hann og væru til í að brjóta skothelt gler með höfðinu fyrir Portúgalann eða hafa nákvæmlega engan áhuga á að spila fyrir hann.

Þegar Mourinho var látinn fara í fyrra skiptið frá Chelsea var mikið skrifað og skrafað um að kóngarnir í Chelsea í þá daga, Frank Lampard og John Terry, hefðu talað hann úr starfi. Þeir voru svo sagðir hafa gert það nokkrum sinnum í viðbót enda stjóraskiptin ansi tíð hjá liðinu.

Mourinho lenti í svipuðu veseni hjá Real Madrid þar sem hann móðgaði nokkra kónga og var algjörlega búinn að missa klefann. Nú eru leikmenn eins og Eden Hazard (besti leikmaður síðasta tímabils), Cesc Fábregas (sem bætti eigið stoðsendingamet í fyrra) og Nemanja Matic (besti varnarsinnaði miðjumaður síðasta tímabils) að spila eins og þeir kunni ekki fótbolta.

Augljóslega urðu þeir ekki verri leikmenn á einni nóttu. Þetta er ekki Space Jam. Yfirmaður tæknimála hjá Chelsea væri ekki að tjá sig opinberlega um ágreining milli leikmanna og Mour­inhos nema þeir væru búnir að kvarta í yfirvaldið. Eins og svo oft áður þurfa leikmenn ekki að sýna neina ábyrgð því auðveldara er að reka einn mann en heilt lið. Og það þurfti Mourinho að upplifa aftur hjá sama liðinu.

José Mourino ætlaði að búa um sig á Brúnni að þessu sinni og vildi vera að minnsta kosti í áratug hjá Chelsea. Hann var kominn til að vera, en eins og með þá flesta hjá Chelsea­ var hann látinn fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×