Jól

Angan af lyngi boðaði komu jóla

Sólveig Gísladóttir skrifar
Hjónin á Kvígindisfelli með börnunum sínum sautján. Neðri röð frá vinstri: Unnur, Fjóla, Svava, hjónin frú Þórhalla og Guðmundur, Þuríður, Svanborg. Efri röð frá vinstri: Karl, Helgi, Hörður, Reynir, Guðmundur, Guðbjartur, Rafn, Oddur, Haukur, Óskar, Magnús, Viðir.
Hjónin á Kvígindisfelli með börnunum sínum sautján. Neðri röð frá vinstri: Unnur, Fjóla, Svava, hjónin frú Þórhalla og Guðmundur, Þuríður, Svanborg. Efri röð frá vinstri: Karl, Helgi, Hörður, Reynir, Guðmundur, Guðbjartur, Rafn, Oddur, Haukur, Óskar, Magnús, Viðir.
Helgi Guðmundsson er næstyngstur sautján systkina. Hann ólst upp að Kvígindisfelli í Tálknafirði í glaðværum barnahópi. Jólin voru einn af hápunktum ársins þegar kveikt var á kertum á heimasmíðuðu jólatré skreyttu angandi lyngi.

Foreldrar mínir voru Þórhalla Oddsdóttir og Guðmundur Kr. Guðmundsson. Pabbi er fæddur 1891 og keypti bæinn Kvígindisfell rúmlega tvítugur. Hann réð móður mína sem ráðskonu þegar hún var sextán ára. Síðan felldu þau hugi saman og hún eignaðist fyrsta barnið sautján ára gömul árið 1916,“ rifjar Helgi upp en foreldrar hans eignuðust sextán börn til viðbótar, það síðasta árið 1943.

Helgi er næstyngstur, fæddur í febrúar 1941. „Þá var fjölskyldan búin að búa í eitt ár í nýju húsi sem þau steyptu upp en á undan því bjuggu þau í torfbæ. Ekki vorum við systkinin öll heima og þegar ég man eftir mér vorum við átta en eldri systkini mín farin að heiman.“





Helgi Guðmundsson rifjar upp jól æskuáranna en hann ólst upp að Kvígindisfelli í Tálknafirði um miðja síðustu öld. Mynd/Stefán
Góð bernska

Kvígindisfell er landnámsjörð og stendur 300 metra frá sjó. „Þar var yndis­legt að alast upp. Um hálftíma gangur var í næstu bæi en það gerði lítið til enda vorum við systkinin sjálfum okkur nóg. Við lékum okkur, smíðuðum báta og bíla og höfðum nóg að gera,“ segir Helgi en fljótlega bættust við skylduverkin í fjósinu og fjárhúsunum. „Svo var mjög gaman í heyskapnum. Meira að segja svo að ég lagðist tvö eða þrjú vor í rúmið með hita vegna ofreynslu,“ segir hann glaðlega.

Hann segir að þau systkinin sem ólust upp saman hafi verið náin. Þau eldri þekkti hann minna. „Þegar ég kom suður 18 ára gamall hitti ég í fyrsta sinn þriðja elsta bróður minn,“ lýsir hann kíminn.

Jólalyktin

Inntur eftir jólaminningum rifjar Helgi fyrst af öllu upp jólatréð. „Við vorum með heimasmíðað jólatré, um 1,20 m á hæð, sem á voru fest kerti. Svo fórum við upp í fjall og tíndum lyng til að vefja utan um stofninn og greinarnar. Af þessu kom góð lykt og enn meira þegar kveikt var á kertunum. Húsið fylltist af lyngangan og það var jólalyktin í okkar huga.“

Hangikjöt á Þorláksmessu

Þó mannmargt hafi verið í húsinu var alltaf nóg til að borða. „Í aðdraganda jóla var mikið borðað fiskmeti og ekki sparaðir bestu bitarnir. Undir jól var þetta annaðhvort siginn eða saltaður fiskur enda ekki mikið verið á sjó þegar kom fram í desember. Á Þorláksmessu var borðað hangikjöt í hádeginu og lambahryggur var í matinn á aðfangadag. Á jóladag var síðan steikt læri,“ minnist hann.

Einnig var mikill spenningur að fá jólaeplin. „Þau voru skömmtuð hjá kaupmanninum og það var alltaf spennandi að sjá hvort maður fengi eitt og hálft epli eða tvö á mann,“ segir Helgi og brosir.

Allir hjálpuðust að

Eins og á öllum fyrirmyndarheimilum var allt þrifið fyrir jólin. „Við krakkarnir hjálpuðum til, jafnt bræður sem systur enda vorum við bræðurnir fleiri. Ég man eftir því að hafa skrúbbað þröskuldana hvíta fyrir jólin,“ segir hann og minnist þess einnig að hafa setið með systkinum sínum að föndra músastiga sem hengdir voru upp til skrauts og sauma poka á jólatréð.

Helgi segir foreldra sína hafa haldið mikið upp á jólin. Jólagjafir voru hins vegar fáar. „Við fengum þó alltaf ný föt. Mamma saumaði öll fötin á fjölskylduna fyrstu árin en þegar ég var kominn undir fermingu var farið að kaupa föt enda meira til í verslunum.“

Eldri systkinin sem bjuggu í bænum sameinuðust iðulega um að senda eitthvert smáræði til þeirra yngri sem heima voru. „Þetta voru langmest bækur. Fyrsta bókin sem ég man eftir að vera spenntur að lesa var Kári litli og Lappi.“

Eldri systkinin komu aldrei heim um jólin eins og nú tíðkast. „Það var of langt að fara auk þess sem vegurinn frá Patreksfirði var lokaður á veturna.“

Hlustað á messu

Ekki var farið í kirkju á aðfangadag. „Presturinn var á Patreksfirði og komst ekki landleiðina. En það var ávallt sest niður þegar búið var að gefa skepnunum og hlustað á messuna í útvarpinu.“

Milli jóla og nýárs var stundum farið milli bæja og spilað. „Langmest vist. Gömlu mennirnir spiluðu hins vegar yfirleitt lomber.“

Helgi heldur enn í nokkrar jólahefðir frá uppeldisárunum. „Við erum til dæmis alltaf með hangikjötið á Þorláksmessu. Skötu borða ég aðra daga ársins. Þá bjuggum við hjónin til músastiga fyrstu árin í okkar búskap en höfum ekki gert það lengi,“ segir Helgi sem sjálfur á barnaláni að fagna og á sex börn sem nú hafa tekið við jólastússinu á aðfangadag en þau hjónin njóta þess að koma í mat.






×