Innlent

Skólastjóraskipti í Melaskóla eftir verulegar væringar

Jakob Bjarnar skrifar
Dagný er kominn í leyfi en verulegur ágreiningur hefur verið innan Melaskóla -- Helgi Grímsson segir málið viðkvæmt en nú er lausn fundin.
Dagný er kominn í leyfi en verulegur ágreiningur hefur verið innan Melaskóla -- Helgi Grímsson segir málið viðkvæmt en nú er lausn fundin.

Dagný Annasdóttir skólastjóri Melaskóla er nú komin í leyfi frá störfum. Við skólastjórastöðunni hefur tekið gamalreyndur skólamaður, Ellert Borgar Þorvaldsson.

Undirskriftalisti kennara
Verulegar væringar hafa verið innan starfsliðs skólans í vetur og var fyrir nokkru lagður fram til Skóla- og frístundasviðs borgarinnar undirskriftalisti, sem 3/4 kennaraliðs  skrifuðu undir þar sem farið var fram á að fenginn yrði annar skólastjóri en Dagný til að stjórna skólanum.

Málið er gríðarlega viðkvæmt og hafa þeir ýmsu sem Vísir hefur rætt við um málið talað afar varlega og/eða neitað að tjá sig. En, víst er að á ýmsu hefur gengið.

Vísir hefur heimildir fyrir því að Dagný hafi lagt fram eineltiskæru á hendur hópnum sem að undirskriftunum stóðu en Dagný var ófáanleg til að tjá sig um það né reyndar nokkuð annað sem að þessu máli snýr, þegar Vísir leitaði eftir því. Hún vísaði á Skóla- og frístundasvið.

Rottugangur í heimilisfræðinni
Talað hefur verið um mikla samstarfserfiðleika og það var svo ekki til að bæta úr skák að heimilisfræðikennarinn varð vör við rottugang þar sem heimilisfræðikennslan fer fram í haust, og lét hún í framhaldi af því af störfum, meðal annars vegna þess að ekki var talið að brugðist hafi verið við með fullnægjandi hætti.

Helgi Grímsson hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar vildi sem minnst tjá sig um málið þegar Vísir leitaði eftir því. Hann segir það flókið, viðkvæmt og að unnið hafi verið að því nú um hríð, að finna farsæla lausn með þeim sem að koma; foreldraráði, kennurum, skólastjóra og fagaðilum. Sú lausn liggur nú fyrir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira