Skoðun
Berglind  Sigmarsdóttir,
framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Fimmta heimsmarkmið SÞ: Ofbeldi í allri mynd gegn öllum konum útrýmt

Berglind Sigmarsdóttir skrifar

Við erum í miðju 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi, alþjóðlegu átaki sem rekja má allt aftur til ársins 1991. Tímasetning átaksins var valin til að tengja saman á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Mannréttindi eru meginþema nýrra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem ganga út á sjálfbæra þróun. Markmiðin sautján eiga að vera leiðarljós fyrir mannkynið og jörðina næstu 15 árin. Þau eru gríðarstór og hljóma jafnvel óraunhæf, enda 169 undirmarkmið og eflaust enn fleiri mælikvarðar sem eru í mótun þessa dagana. Þau eru það kröftug að þau jafnvel gefa smá von í hörmulegu ástandi víða um heim. Við höfum ekki efni á öðru en að veita þeim athygli.

Enginn skilinn eftir
Samstaða var meðal aðildarríkjanna við mótun markmiðanna, að það væri öllum ljóst, að enginn verður skilinn eftir. Markmiðin alhæfa því áberandi: ENGIN fátækt, EKKERT hungur, menntun fyrir ALLA, o.s.frv. Sameinuðu þjóðirnar hafa aldrei fyrr náð jafn breiðri samvinnu við mótun slíkra markmiða, þátttaka almennings og félagasamtaka í ferlinu var söguleg. Það er því ljóst að án okkar þátttöku nást þau aldrei.

Árangur markverður eftir 15 ár
Fimmta heimsmarkmiðið fjallar um jafnrétti kynjanna og tekur sem betur fer sterkt til orða eins og hin 16 markmiðin. Stefnt er að því að útrýma ofbeldi í ALLRI sinni mynd gegn ÖLLUM konum, tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja valdeflingu allra kvenna og stúlkna. Það getur enginn verið ósammála þessu. Þegar stefnt er svo hátt þá er von um að árangurinn verði markverður að fimmtán árum liðnum.

Stjórnvalda að ákveða aðgerðaáætlun
Markmiðin eru alheimsmarkmið sem þýðir að þau skal innleiða hér á landi sem og í öðrum ríkjum heims. Það er verkefni hérlendra stjórnvalda að gefa þeim athygli, fjármagn og mannafla til að móta áætlun og vitundarvakningu svo við náum árangri. Þannig geta hagsmunaaðilar, félagasamtök og almenningur tekið þátt og stutt málefnið. Hér má sjá fimmta markmiðið ásamt undirmarkmiðum:

5. Tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja valdeflingu allra kvenna og stúlkna:
5.1 Mismunun í allri mynd gagnvart öllum konum og stúlkum verði útrýmt alls staðar.
5.2 Ofbeldi í allri mynd gagnvart öllum konum og stúlkum í félagslífi og einkalífi, þar með talið mansal og kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði útrýmt.
5.3 Öllum skaðlegum siðum, eins og barnahjónaböndum, snemmbúnum og þvinguðum hjónaböndum og limlestingu kynfæra kvenna, verði útrýmt.
5.4 Viðurkennd verði, og metin sem viðeigandi innanlands, umönnun og heimilisstörf, sem ekki er greitt fyrir, með því að láta í té opinbera þjónustu, með tilteknum innviðum og stefnum á sviði félagslegrar verndar og með því að ýta undir sameiginlega ábyrgð innan heimilis og fjölskyldu.
5.5 Tryggð verði full og árangursrík þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi í ákvarðanatöku á öllum stigum í stjórnmálalífi, efnahagslífi og opinberu lífi.
5.6 Tryggt verði að almenningur hafi tækifæri til að öðlast kynferðislegt heilbrigði og frjósemisheilbrigði og -réttindi, eins og samþykkt er samkvæmt aðgerðaáætlun alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun og Beijing-aðgerðaáætlunarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira