Handbolti

Formaður dómaranefndar HSÍ: Framkoman gagnvart Antoni og Jónasi til skammar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton og Jónas dæma ekki fleiri leiki á HM.
Anton og Jónas dæma ekki fleiri leiki á HM. vísir/stefán
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson fréttu af því í fjölmiðlum að það væri búið að senda þá heim af HM í handbolta kvenna í Danmörku.

Guðjón L. Sigurðsson, formaður dómaranefndar HSÍ, fordæmir þessi viðbrögð IHF, Alþjóðahandknattleikssambandsins, í samtali við RÚV.

Eins og fjallað var um á Vísi fyrr í dag voru þeir Anton og Jónas sendir heim af HM vegna mistaka sem áttu sér stað í jafntefli Suður-Kóreu og Frakklands í gær. Löglegt mark var þá dæmt af Suður-Kóreu.

Anton dæmdi markið gott og gilt en af einhverra hluta vegna var ákveðið að staðfesta markið með marklínutækninni sem var tekin í notkun á HM karla fyrr á þessu ári.

Eftirlitsdómaranum, hinum danska Bjarne Munk, var ekki sýnt allt atvikið og hann dæmdi markið ógilt, þótt boltinn hafi verið langt fyrir innan marklínuna. Munk, líkt og Anton og Jónas, mun ekki starfa við fleiri leiki á mótinu.

Guðjón vonast til að atvikið hafi ekki áhrif á framtíð Antons og Jónasar sem alþjóðadómarar.vísir
„Við ætlum að mótmæla þessum vinnubrögðum formlega og við höfum leitað eftir stuðningi EHF, Handknattleikssambands Evrópu við að taka á málinu.

„Þessi framkoma gagnvart Anton og Jónasi er til skammar,“ sagði Guðjón í samtali við RÚV en íslenska dómaraparinu var ekki formlega tilkynnt um ákvörðunina að senda þá heim fyrr en á fundi dómaranefndarinnar klukkan átta í morgun.

Sjá einnig: Anton og Jónas ætla ekket að tjá sig um markið | Myndband

Að sögn Guðjóns hafa Anton og Jónas fengið mikinn stuðning en hann vonast til að atvikið hafi ekki áhrif á þá í framtíðinni.

„Þetta er bara ákvörðun sem Hassan Moustafa forseti IHF tók og lét fulltrúa sambandsins birta yfirlýsingu um.

„Núna er forgangsatriði að tryggja að þetta atvik hafi ekki skaðleg áhrif á framtíð Antons og Jónasar sem alþjóðadómarar,“ sagði Guðjón sem fer til Danmerkur á fimmtudaginn þar sem hann ætlar að taka málið upp á fundi handknattleikssambanda Norðurlandanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×