Skoðun

Við viljum borga myndlistarmönnum

Hlynur Hallsson skrifar
Það kostar mikið að reka listasafn en þeim peningum er vel varið og reksturinn skilar sér margfalt aftur til samfélagsins. Börn, ungmenni og fullorðnir njóta myndlistar, fræðast um menningu okkar og sögu, sjá hlutina í nýju ljósi og víkka sjóndeildarhringinn, fá tækifæri til að skapa og hrífast með fjölbreyttum verkum listamanna.

Allir fá greidd laun

Í rekstri listasafns eru margir kostnaðarliðir. Það þarf að borga leigu, rafmagn og hita, tryggingar og tæki og launakostnaður er drjúgur hluti af rekstrinum. Einnig þarf að greiða fyrir prentun, flutninga, smíðavinnu og fleira og fleira. Einn aðili er þó ekki á launum en það er myndlistarmaðurinn sem er að sýna, sá sem allt byrjar og endar á, listamaðurinn sjálfur. Það er mjög einkennilegt.

Þetta er sambærilegt við ef allir starfsmenn Alþingis fengju greidd laun nema þingmennirnir. Og þingmennirnir væru þá allir í sjálfboðavinnu því þeim þætti þetta mikilvæga starf svo skemmtilegt og hefðu svo mikla ástríðu fyrir því. Eða þá ef allir í leikhúsinu fengju laun nema höfundur leikritsins – já, eða bara leikararnir, þeir væru í sjálfboðavinnu og ættu að lifa af einhverju öðru en leiklistinni. Nei, svoleiðis er þetta auðvitað ekki og í því ljósi er enn einkennilegra að myndlistarmenn fái ekki greidd laun fyrir sína vinnu við uppsetningu sýninga á listasöfnum.

Hálfur ráðherrabíll

Listasöfnin vilja borga myndlistarmönnum og málið snýst ekki um stórar upphæðir enda ekki um hálaunastétt að ræða. Listasafnið á Akureyri þyrfti til dæmis jafnvirði hálfs ráðherrabíls á ársgrundvelli til að geta greitt listamönnum laun fyrir sína vinnu í þágu safnsins í heilt sýningarár. En til þess að söfnin geti greitt myndlistarmönnum laun þurfa þau aðeins hærri fjárframlög frá ríki og sveitarfélögum. Væri það ekki sanngjarnt?




Skoðun

Sjá meira


×