Lífið

Bekkjartrúðurinn gefst aldrei upp

Jakob Bjarnar skrifar
Hjálmar Örn Jóhannsson – hjalmarorn110 – ein helsta Snapchat-stjarna Íslands og bókuð sem slík á skemmtanir út árið.
Hjálmar Örn Jóhannsson – hjalmarorn110 – ein helsta Snapchat-stjarna Íslands og bókuð sem slík á skemmtanir út árið.
Tækninni fleygir fram og nýir tímar, nýr vettvangur, kalla á nýjar stjörnur. Ein slík er Hjálmar Örn Jóhannsson, stórstjarna á sínu sviði, en kannski ekki kunnur mikið út fyrir raðir þeirra sem þekkja Snapchat-smáforritið. Tæplega þúsund manns fylgjast reglulega með uppátækjum Hjálmars á Snapchat og mega vart vatni halda. Blaðamaður Vísis, sem hlýtur að teljast í eldri kantinum þeirra sem eiga yfirleitt að fá aðgöngumiða að Snapchat; þvældist þar inn og sá atriði Hjálmars, hjalmarorn110 er notendanafn hans, og bar vel í veiði því þá var Hjálmar að svara, á Snapchat, ýmsum spurningum sem snúa að honum sjálfum.

Blankur Árbæingur en ekki moldríkur arkítekt

Blaðamaður komst að því að Hjálmar er samkvæmt því sem fram kemur á Snapchat stöndugur arkítekt, fæddur 1984, hann nam arkítektúr í Danmörku, hann er eigingjarn (ef eigingirni felst í því að stöðva á rauðu ljósi og hjálpa gamalli konu yfir götu), hann er dýravinur, í ótrúlega góðu formi, er í sambandi en opinn fyrir nýjum möguleikum... nú stöðvar Hjálmar blaðamann.

„Nei, ég er reyndar ekkert af þessu, en jú ég er nýlega orðinn kattarvinur. Ég er fæddur 1973, er með grunnskólamenntun og það er 1929 kr inná debetkortinu mínu akkúrat núna. Ég er í sambandi og gerði langtímasamning,“ segir Hjálmar Örn sem er úr Árbænum – og vill endilega leiðrétta blaðamann hvað varðar þennan ranga misskilning.

En, hvenær fór hann að láta til sín taka á Snapchat?

„Ég byrjaði fyrst 2013 en gerði lítið enda fáir á þessu þá, en fór svo á fullt árið 2014. Þetta er samfélagsmiðill sem hentar mér mjög vel, myndbönd sem eru mest 10 sekúndna á lengd og hægt að spóla áfram ef maður verður leiður eftir 3 sekúndur, sem dæmi. Þetta hentar vel fólki með athyglisbrest sem reyndar flestir Íslendingar eru með. Ég held að þetta sé langbesti miðillinn í dag.“

Kveður orðið svo rammt að þessum athyglisbresti þjóðarinnar?

„Já, fólk nennir varla að horfa lengur á 1 mínútna myndbönd á netinu nema það sé action frá 1 sekúndu.“

Hjálmar Örn er faðir tveggja dætra, 15 og 19 ára og þær skömmuðust sín vel og vandlega og reglulega fyrir pabba sinn fyrst þegar hann byrjaði að „snappa“ eins og það heitir, en þær taka þessu vel í dag. „Búnar að venjast þessu.“

Alteregó Snapchatstjörnunnar

Fyrir þá sem ekki vita hvað Snapchat er þá er um að ræða smáforrit fyrir snjallsíma og þar má setja inn myndir, texta og stuttar vídeóklippur sem það sendir svo sín á milli, inn í tiltekna hópa. Fólk notar þetta í ýmsum tilgangi, Hjálmar Örn notar þennan vettvang einkum til að viðra fjögur alteregó sín.

Þessir karakterar eru, með orðum Hjálmars: „Illa Nettur sem er karakter í anda Jackass en langt frá þeim í öllu, Karl Önnusson Magnason Sigrúnarson sem er mikill feminísti, Bjarni - Gröfumaður (46) sem er flest sem við viljum ekki vera eða allaveganna flest okkar og svo Halli Hipster sem er mikill kúnsner og drekkur sem dæmi aðeins bjór sem enginn þekkir því annað er ekki kúl.

Þessir karakterar eru fjórir eins og er en svo kemur Jólasveinninn inn núna í desember, hann er drykkfelldur og hundleiður á þessu flestu tengdu jólunum. Og, hann er líka oftast í baði með bjór og snakk,“ segir Hjálmar Örn og greinilegt að hann er farinn að hugsa sér gott til glóðarinnar með að kynna hann til leiks.

Bjarni gröfumaður er alltaf ber að ofan

Alteregó mega teljast póstmódernísk fyrirbæri sem dansa á mörkum raunveruleika og skáldskapar, nema þau fá á sig sérlega raunverulegan blæ í þessu formi, sem Snapchatskilaboð; þau eru hér og þar og svo horfin – því Snapchatskilaboð eyðast sólarhring eftir að þau hafa verið sett inn. Viðbrögðin við framgöngu Hjálmars á Snapchat láta ekki á sér standa.

„Þau eru gríðarleg, ég hef verið stoppaður oft út á götu til að fá snapp og þá helst beðinn um að fara í eitthvert gervi, sem getur verið vandræðalegt þar sem Bjarni (46) gröfumaður er alltaf ber að ofan.“

En, eru ekki einhverjir sem hreinlega eru að kaupa þessar persónur sem raunverulegar?

„Jú, ég fékk töluvert „feedback“ frá fólki þegar Bjarni Gröfumaður kom fyrst fram á sjónarsviðið. Ekki alveg allir sem áttuðu sig á því hvað var að gerast og héldu kannski að þetta væru mínar skoðanir sem Bjarni hafði uppi. En það tengja margir við þessa karektara og það er líklega örlítið af þeim í okkur öllum.“

Bókaður í veislur sem karakter

Vegur Hjálmars Arnar fer vaxandi og nú er svo komið að fólk er farið að hringja í hann og panta í skemmtanir af ýmsu tagi.

„Já, það hefur verið nokkuð um það að fólk bóki mig til sín sem einhver af þessum karakterum í afmæli og fleira. Þetta hefur aukist gríðarlega að undanförnu og sem dæmi þá er ég alveg bókaður út nóvember og má segja hálfan desember, á þessum helstu álagstímum.“

Tvær milljónir horfðu fylgdust með Hjálmari Erni á Snapchat þegar hann hvatti fólk til að koma til Íslands fremur en fara til tunglsins.
Þá nefnir Hjálmar Örn það að hann hafi verið með Pubquiz í um sex ár og þessir karakterar hafa komið þar við sögu og hjálpað uppá sakirnar.

En, eru þessir karakterar ekkert að kássast uppá þig og þína, svona utan dagskrár?

„Ég er mjög latur heima en nota stundum Bjarna Gröfumann karakterinn þegar það þarf að gera eitthvað eins og að laga og svona, það hjálpar en með þá Illa Nett, Halla Hipster og Karl Önnusson, það er sáralítil hjálp í þeim.“

Enn er það sem sagt svo, að mati Hjálmars, að karakterarnir eru fremur stoð og stytta en að þeir hreinlega flækist fyrir, þó blaðamaður Vísis sé ekki eins sannfærður um það og viðmælandinn, því þær eiga það til að dúkka upp óumbeðnar í þessu spjalli. „Ennþá er mikil hjálp í þeim.“

Vinnur með öldungum sem fóru á vinnumarkað fjögurra ára

En, hvað starfar svo þessi helsta Snapchat-stjarna Íslands? Því, enn er það svo að salt í grautinn fylgir ekki frama á Snapchat.

„Ég er að keyra allan daginn með eldri mönnum 71, 74 og 75 ára.“

Ha?

„Ég ferja bíla fyrir bílaleigu. Við erum 4 saman í því. Meðalaldur um 100 ára. Þetta heitir Dollar Thrifty og er í eigu Brimborgar.“

Og, Hjálmar Örn segir þetta fara vel með áhugamálinu, það má þróa karakterana þegar menn sitja undir stýri langtímunum saman.

„Algjörlega og þessir menn sem ég vinn með eru gull, af gömlu kynslóðinni og ég fæ að heyra það reglulega að í gamla daga var unnið. Þeir byrjuðu að vinna um 4 ára gamlir. Eins og Bjarni gröfumaður reyndar. Hann byrjaði að borga í VR 6 ára.“

Alteregóin láta á sér kræla án þess að Hjálmar Örn fái rönd við reist. Bjarni gröfumaður var kominn á vinnumarkaðinn barnungur, en það á ekki við um Karl Önnusson?

„Nei. Hann er þannig að hann langar svo mikið að vera mjög góður við allar konur, svo mjög að hann er stanslaust að verja þær fyrir körlum. Ég átta mig í raun ekkert á honum stundum.“

Nei, hann er vandrataður vegurinn sá...

„Heldur betur.“

Hefur fengið sitt korter af heimsfrægð

Nú er frá því að segja að Hjálmar Örn er frægur langt út fyrir landsteina. Hann átti sitt korter heldur betur, tvær milljónir manna sáu þá Snapchat Hjálmars og blaðamaður, sem er fávís um Snapchat, spurði nánar útí þetta atriðið.

„Það var þannig að Snapchat kom hingað með sitt Story eins og það er víst kallað. Ég var þá að keyra Reykjanesbrautina og fékk þá hugmynd að fara út í hraunið og öskra „Don‘t go to the moon, visit Iceland it‘s much cheaper ok its expensive but its cheaper than the moon.“ Þetta vakti mikla athygli og fékk ég nokkur ödd á snappið frá USA og fólk tvítaði um að það vildi kynnast mér. En enginn hefur samt reynt að heimsækja mig þannig að sennilega er mín heimsfrægð búinn.“

Bekkjartrúðurinn gefst aldrei upp

Árbæingurinn er ekki með öllu ókunnugur leiklist, það kemur uppúr dúrnum að hann hefur komið að þáttagerð sem reyndar hlaut ekki náð fyrir miskunnarlausum augum íslenskra sjónvarpsáhorfenda.

„Ég lék í frábærum þáttum sem fengu reyndar dræmar undirtektir á visir.is og Bravó en þeir voru framleiddir af mér og Sigurði Hannesi Ásgeirssyni. Þeir heita Háski. Einnig var ég aðeins í skemmtiþættinum hans Pétur Jóhanns á Bravó og svo sketcha hér og þar á netinu.“

En, nú er fjölin fundin. Hvaðan kemur þessi áhugi, heldurðu?

„Ég hef alltaf haft áhuga á að gera eitthvað gríntengt alveg síðan maður var bekkjartrúðurinn. Ég vil segja í því framhaldi við alla bekkjartrúða og vinnustaðargrínana þarna úti að hætta því aldrei! Aldrei!“

Vísir hlýtur að taka undir það. Og bendir þeim sem eru á Snapchat að senda hjalmarorn110 beiðni; þeir verða ekki sviknir við að sjá atriði úr þeim ranni – það er víst ábyggilegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×