Innlent

Í lífshættu eftir fall niður í sex metra sprungu

Leiðsögumaðurinn Bryndís Kristjánsdóttir var á leið með hóp ferðamanna upp að Þríhnúkagíg þegar hún féll skyndilega ofan í sprungu. Eldri maður sem var með í ferðinni reyndi að verja hana falli en við það missti hann jafnvægið og féll á eftir henni.

Enn er óljóst hvað nákvæmlega gerðist en Bryndís féll niður rúma sex metra og lenti beint á höfðinu. Svo virðist sem eldri maðurinn hafi lent ofan á henni.

„Mér finnst líklegasta skýringin að ég hafi runnið til og farið bara eins og raketta niður vegna þess að ég slasast nær ekkert á útlimum,“ segir Bryndís en slysið átti sér stað fyrir rúmu ári og verður til umfjöllunar í lokaþættinum af Neyðarlínunni sem verður sýndur á Stöð 2 á sunnudag.

Í framhaldinu fór af stað mikil og stór björgunaraðgerð þrautþjálfaðs fólks þar sem hver mínúta skipti máli. „Maður sér strax að þetta er mjög alvarlegt slys og að það þyrfti talsvert til að koma þeim upp,“ segir Björn Ólafsson framkvæmdastjóri Inside the Volcano sem var staddur í grunnbúðunum við Þríhnjúkagíg þegar hann fékk fréttir af slysinu. Hann og Víðir Pétursson fóru strax á vettvang, en báðir hafa áratugareynslu af björgunarstörfum.

„Það var í raun ekkert annað að gera en að reyna að koma einhverjum ofan í sprunguna til þeirra,“ segir Víðir sem er vanur klifrari og tókst að fikra sig niður.

Meðfylgjandi er brot úr þættinum sem er á dagskrá kl. 20.05 á sunnudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×