Skoðun

Vond skilaboð lögreglu

Eva H. Baldursdóttir skrifar
Tveir menn hafa stöðu sakbornings í tveimur aðskildum nauðgunarmálum. Samkvæmt fréttaflutningi er þolendum í báðum tilvikum nauðgað eftir bekkjarskemmtanir, í annað skipti a.m.k. í íbúð í Hlíðunum þar sem gerendur beittu hrottalegu líkamlegu – og kynferðislegu ofbeldi. Níu dagar eru á milli meintra nauðgana, sem falla í þann flokk að teljast bæði hóp- og raðnauðganir. Grófari verða kynferðisbrotin ekki.

Lögreglan hefur gefið það upp að í samræmi við framvindu rannsóknarinnar hafi það verið metið svo að ekki væri hægt að úrskurða sakborningana í gæsluvarðhald út frá rannsóknarhagsmunum eða almannahagsmunum. Eins og málið horfir við samkvæmt fréttaflutningi er ljóst að skilyrði 95. gr. sakamálalaga eru engu að síður uppfyllt. Kryfjum þessi ummæli lögreglu. Af hverju ættu rannsóknarhagsmunir ekki að krefjast gæsluvarðhalds? Er það vegna þess að þau gögn sem lögregla hefur undir höndum séu þess eðlis að þau séu fullnægjandi til sakfellingar?

Túlkar skilyrði of þröngt

Í ljósi alvarleika brotanna og þess að þau eru framkvæmd að yfirlögðu ráði hljóta almannahagsmunir þá að leiða til gæsluvarðhalds. Mat lögreglu er hins vegar að svo sé ekki. Í d-lið 95. gr. segir að úrskurða megi sakborning í gæsluvarðhald ef það er nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings. Í 2. mgr. 95. gr. kemur fram að ef sterkur grunur leikur á að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi megi úrskurða í gæsluvarðhald, sé brotið þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, en nauðgun getur varðað allt að 16 ára fangelsi.

Það stafar hætta af mönnum sem eru grunaðir um hrottalegar og skipulagðar nauðganir. Mat lögreglu um að almannahagsmunir krefjist ekki gæsluvarðhalds vegna þessara kynferðisafbrota er ekki aðeins siðferðislega rangt, heldur líka lögfræðilega, ef það sem fram er komið um atvik málsins er rétt. Lögregla er þá ekki að sinna grundvallarskyldu sinni, að tryggja öryggi borgaranna. Að endingu er það svo dómstóla að meta hvort skilyrðin séu uppfyllt, en lögregla leggur það mat ekki í hendur dómstóla. Í stað þess túlkar hún skilyrði gæsluvarðhalds of þröngt og á sama tíma sendir þau skilaboð til samfélagsins að nauðganir séu ekki svo alvarlegar. Það eru vond og hættuleg skilaboð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×