Skoðun
Guðmundur Gunnarsson, starfsmaður Gætum garðsins.

Höldum okkur við staðreyndir

Guðmundur Gunnarsson skrifar

Í leiðara Fréttablaðsins 10. nóvember sl. fer Óli Kristján Ármannsson fram á að talsmenn Gætum garðsins haldi sig við staðreyndir. Óli Kristján segir að það séu rangfærslur og útúrsnúningar hjá Björk og Andra Snæ að halda því fram að Íslendingar horfi til þess að sjá Bretum fyrir rafmagni, eða að ríkisstjórnin geti á einhvern hátt keyrt í gegn stefnu þar sem ráðist yrði í virkjanir út um allar koppa grundir.

Það virðist vera að Óli Kristján hafi ekki verið á fundinum eða ekki hlustað á streymi Vísis af fundinum. Þau vitnuðu í viðtöl sem birst hafa í enskum fjölmiðlum við forsætisráðherra Íslands og Bretlands þar sem þetta kom fram og birtu m.a. nokkrar tilvitnanir í ummæli þeirra um „Britain and Iceland volcano power project“. Í ræðum Bjarkar og Andra Snæs og undirritaðs var bent á að þessar fullyrðingar ráðherranna stæðust enga skoðun. Það væri einfaldlega ekki hægt að skaffa allt það rafmagn sem forsætisráðherrarnir töluðu um, jafnvel þó allt væri virkjað hér á landi sem virkjanlegt er. Þannig að réttara væri hjá Óla Kristjáni að beina orðum sínum til Sigmundar Davíðs og Cameron. Reyndar sagði iðnaðarráðherra í viðtölum á föstudaginn eftir fund Gætum garðsins að það væri margt rangt sem Björk og Andri Snær hefðu sagt. Við bíðum spennt eftir því að heyra frá iðnaðarráðherra hvað af því sem við sögðum sé rangt.

Óli Kristján fullyrðir að meirihluti þeirrar orku sem rætt er um að selja um rafstreng verði umframorka frá núverandi virkjunum sem ekki nýtist hér innanlands. Staðan í dag er hins vegar sú að það er skortur á rafmagni á ákveðnum stöðum á landinu, sérstaklega á Norðausturlandi. Sú orka er framleidd með olíu. Þessi orka er til en það kallar á úrbætur í dreifikerfi Landsvirkjunar.

Einn mesti fjársjóður landsins
Við höfum í málflutningi okkar aldrei dregið það í efa að það þurfi að lagfæra orkudreifikerfið og jafnvel að virkja eitthvað meira, en það eru hins vegar uppi deilur um hvernig eigi að gera það. Það stefnir í að það vanti orku á Eyjafjarðarsvæðið, sama á við Skagafjarðarsvæðið, sama á við Skagaströnd þ.e.a.s. ef þar verður byggt álver. Það er hafin bygging stóriðju á Húsavík og þegar þessi stóriðja verður ræst vantar orku til Húsavíkur. Sama á við um Grundartanga, þangað vantar mikla orku. Það er hafin bygging orkufrekrar stóriðju í Helguvík, þangað vantar mikla orku.

Þrátt fyrir þetta lætur forsætisráðherra landsins hafa eftir sér framangreindar fullyrðingar við erlenda fjölmiðla og fundur Gætum garðsins var einmitt haldinn til þess að leiðrétta það við þá fjölmörgu erlendu blaðamenn sem hér eru.
Miðhálendi Íslands er sannarlega einn mesti fjársjóður landsins. Þar má finna stærsta ósnortna víðerni í Evrópu. Stórbrotnar landslagsheildir og náttúrufyrirbæri með eldfjöllum, jöklum, vatnsmiklum ám og fossum. Víðerni á Íslandi hafa minnkað um 68% frá árinu 1936 samkvæmt nýlegri rannsókn við Háskóla Íslands, það verður ekki gengið lengra.
Það virðist ekki vefjast fyrir íslenskum stjórnvöldum að leggja lengsta sæstreng í heimi eða 1.200 kílómetra til Bretlands til þess að tryggja rafmagnsöryggi Bretlands. Til þess að geta gert það þarf að virkja nánast allt sem virkjanlegt er á landinu og leggja háspennulínur eftir þverar sveitir Norðurlands og yfir Sprengisand. Sigmundur Davíð segir það hins vegar ekki koma til greina að leggja jarðspennustrengi fyrir Íslendinga til verndunar íslenskrar náttúru, það sé alltof dýrt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Klám

Guðmundur Brynjólfsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.