Skoðun

Hátækni á mygluðum fornminjum

Birgir Guðjónsson skrifar
Það er nokkuð vinsælt í kvikmyndum að mynda hið gamla og ekki síður að spá í framtíðina eins og nýlegar kvikmyndir hafa sýnt og verið vinsælar.

Nóg er þessa dagana af áhugaverðu efni sem skrásetjarar framtíðar geta skoðað og kvikmyndað, t.d. hvort hjólreiðamönnum hafi tekist að loka Reykjavíkurflugvelli og knýja borgarbúa sem landsmenn almennt til hjólreiða.

Annað áhugavert er nýlega fundinn snyrtilega hlaðinn götukantur sem hlaðinn var 1928 og nokkrir landkrabbar og landsfeður hafa viljað kalla hafnargarð og friða sem fornminjar. Vandséð er hvers konar skip gætu lagst að slíkum halla.

Nýjan spítala án myglusvepps

Þriðja málið væri hinn umtalaði Landspítali sem er nokkurn veginn á sama aldri og meintur hafnargarður og því rökrétt einnig fornminjar. Spítalinn er ótvírætt gamall með myglusveppum vítt og breitt sem hafa valdið heilsuvanda jafnvel hjá starfsfólki. Ekki eru heldur salernin mörg samkvæmt upplýsingum starfsmanna í fjölmiðlum.

Þörf á nýjum spítala með salernum og án myglusveppa er flestum ljós. Var samþykkt samhljóða í hvelli af vitringum við Austurvöll að endurbyggja spítalann við Hringbraut og endurnýta byggingar sem mest og gera að hátæknisjúkrahúsi. Slíkar ályktanir eru sjaldnast til heilla og nú efast margir um ákvörðun vitringanna en sitja upp með þá og ákvörðun þeirra og telja nýbyggingu (án myglusveppa) utan þéttasta byggðakjarnans vera viturlegri.

Til hverra var leitað?

Fullyrt er við almenning að bestu ráða hafi verið leitað víða um lönd og samdóma álit fengist um að núverandi staðsetning væri hentugust þrátt fyrir umferð og endurnýta ætti sem flest á staðnum.

Fróðlegt væri að vita til hverra hafi verið leitað a.m.k. var það ekki til Karólínsku stofnunarinnar, einnar virtustu á Norðurlöndum og jafnvel í Evrópu sem nú er að endurbyggja sjúkrahúsið í a.m.k þriðja skipti frá grunni og á nýjum stað utan borgarkjarnans með þeim rökum að það væri hentugra en að endurbyggja og endurnýta allt það gamla.

Þarf ekki að leita víða til að sjá að þekkt sjúkrahús hafi verið endurbyggð á nýjum stöðum. Einhverjir eru með langt nef eins og Gosi forðum og svartan blett á tungunni fyrir að segja ekki rétt frá.

Kvikmyndagestir framtíðarinnar geta sennilega fengið að vita hvaða hagsmunaöfl réðu því að reynt var að byggja hátæknisjúkrahús með framtíðarþarfir í huga á mygluðum fornminjum!

Vonandi verður ekki tilefni fyrir kvikmyndagesti framtíðarinnar að spyrja hvers vegna ábyrgðarstöður séu enn veittar samkvæmt pólitískum, ættar- og kunningsskapartengslum en ekki faglegum verðleikum.




Skoðun

Sjá meira


×