Innlent

Þjóðin klofin í afstöðu til aðskilnaðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Það kemur mér ekki á óvart að meirihlutinn skuli vera hlynntur. Það kemur mér meira á óvart að það skuli ekki vera stærri meirihluti,“ segir Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi, um niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju.

Niðurstöðurnar könnunarinnar, sem gerð var dagana 10. og 11. nóvember, sýna að tæplega helmingur Íslendinga, eða 48 prósent, styður aðskilnað ríkis og kirkju, 39 prósent eru andvígir, 12 prósent óákveðnir og 2 prósent svara ekki. Þegar einungis er horft til svara þeirra sem afstöðu tóku eru 55 prósent hlynntir aðskilnaði en 45 prósent andvíg.

Um það bil 2 af hverjum þremur svarendum á aldrinum 18-49 styður aðskilnað. Aftur á móti styðja einungis um 43 prósent þeirra sem eru 50 ára og eldri aðskilnað en 57 prósent eru á móti. Karlar eru heldur hlynntari aðskilnaði en konur.

Davíð Þór segir að niðurstaðan segi sér að fólkið sem sé hlynnt aðskilnaði láti meira í sér heyra en hitt. „Af umræðunni í samfélaginu að dæma hefði ég haldið að það væri stærri meirihluti,“ segir Davíð Þór.

Davíð segist ekki vera alveg viss um það hvor allir séu með það á hreinu hvað þeir meina með aðskilnaði ríkis og kirkju. Á Íslandi hafi verið sett lög árið 1997 sem byggðu á sænskum lögum um aðskilnað ríkis og kirkju. Þó sé hægt að ganga lengra í aðskilnaðinum. Það séu ekki tengslin við ríkið sem geri kirkjuna að þjóðkirkju heldur það að kirkjan sé allrar þjóðarinnar og eigi að höfða til allrar þjóðarinnar. „Hún myndi halda áfram að vera þjóðkirkja þó að tengsl hennar við ríkið væru alveg klippt.“

Davíð segir að það hafi komið sér verulega á óvart að í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá hafi afgerandi meirihluti þeirra sem atkvæði greiddu viljað hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni. „Sjálfur greiddi ég atkvæði gegn því og hefði viljað frekar sjá ákvæði um að ríkinu bæri að standa vörð um trúfrelsi frekar en eitthvert eitt trúfélag.“

Davíð Þór segir alveg ljóst af þessum niðurstöðum að þjóðkirkjan eigi enn, þrátt fyrir tal um annað, mjög ríkan sess í hjörtum þjóðarinnar og þjóðarvitund, þótt þessi vitund fari dvínandi. „Það er bara eitthvað sem við verðum að umfaðma og vera viðbúin,“ segir Davíð.

Þetta þýði ekki endilega að ríkið þurfi að hætta þeirri þjónustu að annast innheimtu sóknargjalda. „Ríki gera það víðar,“ segir Davíð Þór og bendir á að ríkið geri það fyrir fleiri trúfélög en hina evangelísku lúthersku kirkju. „Það finnst mér vera til fyrirmyndar og það er framlag ríkisins til að standa vörð um trúfrelsi. Vegna þess að það er ekkert víst að öll trúfélög hafi burði eða umsvif til að annast þetta sjálf,“ segir hann.

Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.214 manns þar til náðist í 799 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 10. og 11. nóvember. Svarhlutfallið var 65,8 prósent. Spurt var: Styður þú aðskilnað ríkis og kirkju og svarmöguleikarnir voru tveir, já og nei. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×