Innlent

Funda vegna skjálfta í Bárðarbungu

Svavar Hávarðarson skrifar
Aftur skelfur jörð við Bárðarbungu.
Aftur skelfur jörð við Bárðarbungu. fréttblaðið/egill
Aukin jarðskjálftavirkni í og við Bárðarbungu á síðastliðnum tveimur vikum verður rædd á fundi vísindamannaráðs Almannavarna í dag. Þar bera vísindamenn saman bækur sínar þar sem hugsanlegar ástæður hennar verða ræddar.

Samkvæmt upplýsingum frá Veður­stofu Íslands hefur smáskjálftum á svæðinu fjölgað nokkuð – en mikil smáskjálftavirkni var á svæðinu dagana og vikurnar eftir að eldgosinu í Holuhrauni lauk. Úr henni dró jafnt og þétt en hún hefur aukist aftur með tveimur jarðskjálftum sem mældust yfir þrjú stig – 3,1 í síðustu viku og 3,2 um miðjan dag á mánudag.

Eldgosið í Holuhrauni stóð í hálft ár – hófst þann 31. ágúst 2014 og goslok voru tilkynnt 28. febrúar síðastliðinn. Fjöldi mælitækja er við eldstöðina vegna verkefnisins FutureVolc, en umbrotin voru skráð af nákvæmni af vísindamönnum verkefnisins.


Tengdar fréttir

Vilja gæða fúkyrðaflóruna lífi

Það er fallegt að kunna að blóta á okkar ástkæra, ylhýra móðurmáli. Það er bragur yfir slíku blóti,“ segir Hafþór Sævarsson, nýkjörinn formaður Hins íslenska fúkyrðafélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×