Erlent

Obama hafnar Keystone XL olíuleiðslunni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rör sem staflað hefur verið upp og átti að nota í olíuleiðslu milli Nebraska og Alberta.
Rör sem staflað hefur verið upp og átti að nota í olíuleiðslu milli Nebraska og Alberta. Fréttablaðið/EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann myndi hafna beiðni um lagningu Keystone XL olíuleiðslunnar frá Alberta í Kanada til Nebraska.

Ef olíuleiðslan yrði lögð myndi hún vera um 1.900 km á lengd og hefði getu til að flytja um 800 þúsund tunnur af olíu til Nebraska.

Barack Obama segir Keystone ekki örva Bandarískan hagvöxt.
Umræðan um lagningu leiðslunnar hefur verið mikið bitbein í bandarískum stjórnmálum og umhverfisverndarsamtök þar í landi telja lagningu hennar geta valdið gríðarlegu umhverfistjóni.

Obama sagði í ræðu sinni að ólíklegt væri að leiðslan myndi hafa mikil áhrif á bandarískan efnahag.

„Á meðan stjórnmálamenn voru að rífast um það hvort olíuleiðslan myndi lækka eldsneytiskostnað og skapa störf tókum við frumkvæðið og lækkuðum eldsneytiskostnað og sköpuðum fleiri störf,“ sagði hann.

Justin Trudeau hefur stutt við Keystone framkvæmdirnar.
Fyrirtækið TransCanada hefur barist fyrir lagningu leiðslunnar undanfarin ár. Trans­Canada, sem hefur hingað til lagt hart að bandarískum yfirvöldum, dró umsókn sína um lagningu leiðslunnar óvænt til baka en grunur lék á að Obama myndi hafna umsókninni.

Justin Trudeau, sem nýlega tók sæti forsætisráðherra Kanada, hefur verið stuðningsmaður olíuleiðslunnar en hann hefur ekki tjáð sig um málið eftir að hann sór embættiseið á miðvikudaginn.

Stephane Dion, utanríkisráðherra Kanada, sagði á fimmtudaginn að ríkisstjórnin styddi Keystone XL en myndi ekki hætta á að spilla samskiptum sínum við Bandaríkin vegna þessa.

Ákvörðun Obama þykir skipta máli í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar sem haldin verður í París í lok mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×