Viðskipti innlent

Milljarði minna í veiðigjöld nú en á síðasta ári

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Stærstu greiðendurnir eru skráði í Reykjavík og Vestmannaeyjum.
Stærstu greiðendurnir eru skráði í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Vísir/CartoDB
Rúmum milljarði minna er lagt á útgerðir vegna sérstakra veiðigjalda nú en í fyrra. Samtals greiða útgerðir 3,1 milljarð í sérstakt veiðigjald samanborið við 4,8 milljarða í fyrra. Þetta kemur fram í tölum á vefsíðu Fiskistofu, sem birti fyrir helgi upplýsingar um veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2014/2015.

Í gögnunum kemur fram að heildarfjárhæð almenns og sérstaks veiðigjalds nemur 7,7 milljörðum samanborið við 9,2 milljörðum í fyrra.

Stærstu greiðendurnir eru skráði í Reykjavík og Vestmannaeyjum. HB Grandi greiðir mest, eða rúman milljarð króna. Næst á eftir kemur Síldarvinnslan, sem greiðir 729 milljónir og þar skammt undan er Ísfélag Vestmannaeyja, sem greiðir 680 milljónir króna. 

Á kortinu má sjá hvaða staðir á landinu skiluðu mestum veiðigjöldum.

73 fyrirtæki sem greiða veiðigjöld eru skráð í Reykjavík, sem gerir borgina bæði stærsta og fjölmennsta útgerðarstað landsins. Fyrirtæki í Reykjavík greiddu 1,6 milljarð króna. Næst flest fyrirtæki eru í Hafnarfirði, eða 51, en þau greiða samtals 41 milljón króna.

Fyrirtæki í Vestmannaeyjum greiða að jafnaði mest en samtals greiða 26 fyrirtæki skráð í bænum 1,5 milljarð króna. Það þýðir að jafnaði greiðir hvert fyrirtæki tæpar 58 milljónir króna, sem er meira en 47 fyrirtæki á Stykkishólmi greiddu samtals. 

Í töflunni eru upplýsingar yfir heildarveiðigjöld, bæði sérstök og almenn, með teknu tilliti til afsláttar, sem hvert fyrirtæki greiðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×