Innlent

Óprúttinn köttur ruplar röndóttu í Vesturbænum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Röndóttir sokkar eru í miklu uppáhaldi hjá Ljósu, sem hefur að undanförnu farið í ránsferðir um Vesturbæ.
Röndóttir sokkar eru í miklu uppáhaldi hjá Ljósu, sem hefur að undanförnu farið í ránsferðir um Vesturbæ.

Kötturinn Ljósa hefur að undanförnu látið „greipar“ sópa í þvottahúsum nágranna sinna í Vesturbænum, og haft sérstakan augastað á röndóttum flíkum. Þýfið fer hún svo með til eiganda síns, Ólafar Sverrisdóttur leikkonu.

„Ætli það sé ekki kominn tími á að biðja nágrannana á Framnesveginum afsökunar,“ segir Ólöf hlæjandi. Hún segir Ljósu hrífast mest af sokkum og vettlingum, en að nú síðast hafi hún komið heim með nærbrækur.

„Það tók mig dágóðan tíma að átta mig á því að þessir hlutir væru frá henni. Fyrst um sinn skildi ég ekkert í því hvers vegna ég var að finna hinn og þennan sokk um allt hús, en áttaði mig svo á að þetta væri eitthvað sem Ljósa hafði komið með heim. Núna hins vegar skilur hún nánast allt eftir fyrir framan útidyrahurðina,“ útskýrir Ólöf. „Hún hafði þó ekki komið með nærbuxur heim fyrr en í nótt.“

Ljósa litla er mikill karakter að sögn Ólafar.

Áhugi Ljósu á vettlingum og sokkum byrjaði þegar hún var kettlingur og hefur síðan þá ágerst umtalsvert. „Þegar hún var lítil kom hún heim með drulluga vettlinga og svoleiðis, en núna er allt sem hún kemur heim með hreint. Það má allavega segja að það sé betra en að hún sé að koma heim með mýs eða fugla líkt og sumir kettir gera,“ segir Ólöf.

„En ég er alveg viss um að þetta séu gjafir ætlaðar mér. Hún er allavega alltaf alveg voðalega stolt þegar hún kemur með þetta heim.“

Á meðfylgjandi mynd má sjá brotabrot af því sem Ljósa litla hefur gefið eiganda sínum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.