Lífið

Já-ið breyttist í nei þegar hakkarans var leitað

Jakob Bjarnar skrifar
Hin umdeilda könnun Útvarps Sögu, um hvort treysta megi Bubba Morthens, ætlar að draga dilk á eftir sér.
Hin umdeilda könnun Útvarps Sögu, um hvort treysta megi Bubba Morthens, ætlar að draga dilk á eftir sér.
Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri segir tölvuárásirnar á Útvarps Sögu setja allar skoðanakannanir á Íslandi í uppnám. „Sú er spurning dagsins,“ segir Arnþrúður: Sá er lærdómurinn.

Útvarp Saga greindi frá því á vefsíðu sinni á fjórða tímanum að útvarpsstöðin hefði mátt sæta árásum harðsvíraðs tölvuhakkara.

Vísir náði í útvarpsstjórann skömmu áður en hún hljóp í útsendingu en þar ætlar hún einmitt að fara að fjalla um tölvuárásirnar sem Útvarp Saga mátti sæta aðfararnótt laugardags. Þá mun hakkari hafa sett upp sjálfvirkan búnað sem dældi inn „já“ við hinni umdeildu könnun Útvarp Sögu: „Treystir þú Bubba Morthens?“

Þrátt fyrir að umræddur einstaklingur hafi greitt Bubba rúmlega 40 þúsund já birtust lesendum síðunnar þau sem „já“ til að byrja með en breyttust svo skyndileg í „nei“.

Hvernig breyttist jáið í nei?

En, þá er spurningin hvernig þessi „já“ breyttust í „nei“?

„Það er bara partur af því þegar við uppgötvuðum að verið væri að dæla inn þessum atkvæðum inn öll á jái. Könnuninni var í raun lokið, þá er sett inn, greinilega einhver róbott eða autoclicker, dælir inn jáum með nokkurra sekúndna millibili. Þegar þegar náum að stoppa það voru komin 40 þúsund og 95 „já“, og sérfræðingur okkar náði ip-tölunni.“

En, af hverju breyttist þetta „já“ hakkarans í „nei“?

„Við í sjálfu sér gerðum ekkert með það. Könnunin var ekkert lengur. Það var bara verið að rannsaka hvernig þetta var gert. Partur af því. Könnunin var orðin algert ómark, það var ekkert að marka þessa könnun eftir klukkan 23:55 að kvöldi föstudags.“

Já, breyttuð þið þá „já-inu“ í „nei“ til að stríða hakkaranum?

„Nei, þetta er algert aukaatriði í málinu. Enda var þetta ekkert niðurstaða, bara partur af því að finna út úr því hvernig þetta var gert. Það var engin könnun gild faktískt þó við værum ekki búin að fjarlægja þetta út. Allt ein og sama kennitalan. Svakalegt. Svarið sem ég fæ að þetta séu menn af þeim styrkleika að þeir geti farið inní hvaða tölvukerfi sem er.“

Arnþrúður ætlar Bubba það ekki að hafa staðið að baki tölvuárásunum á Útvarp Sögu, en sennilega er þar á ferðinni harður aðdáandi Bubba.
Ætlar Bubba það ekki að hafa staðið að baki árásunum

Arnþrúður segir þessa tölvuárás alvarlega, þetta sé í fyrsta skipti sem þau á Útvarpi Sögu hafa lent í slíku og þá ekki af miklu tilefni. Heldurðu nokkuð að Bubbi Morthens hafi staðið sjálfur að baki þessu?

„Nei, ég ætla honum það nú ekki. En þetta segir okkur að það er allskonar lið sem til sem er til í hvað sem er.“

En, þetta hlýtur þá að hafa verið einhver mjög harður Bubba-aðdáandi?

„Já, eða þetta er einhver sem vildi tryggja að Bubbi fengi nógu mörg já. En, við höfum verið með þessar skoðanakannanir í mörg herrans ár, ekki vísindalegt heldur meira til gamans.

Útvarp Saga vildi fá að vita hvort hlustendur treysta þessum manni eða ekki, og sú spurning hefur nú undið uppá sig.
En samt oft vísbending um strauma og stefnur. Ekki að þetta sé vísindalegar niðurstöður, ekki tekið því hátíðlega, bara að þetta sé hægt segir manni að það er hægt að gera þetta við allar kannanir á Íslandi,“ segir Arnþrúður.

Fylgi Pírata kannski falsað?

En, aðalatriðið er samt það að nú er ekki hægt að treysta neinum fylgiskönnunum, að mati útvarpsstjórans, sem nú er reynslunni ríkari eftir að hafa lent í harðsvíruðum tölvuþrjóti.

„Það er hægt að fara inn hjá Gallup og öllum þeim sem eru með svona skoðanakannanir og breyta niðurstöðunum. Hvað er nú að marka stuðning við stjórnmálaflokkana, þetta gerist allt á netinu. Menn eru ekkert að gera þetta í síma lengur, aðferðarfræðin er breytt.“

Arnþrúður veltir því nú fyrir sér hvort það sé eitthvað að marka þetta mikla fylgi sem Píratar hafa verið að fá í skoðanakönnunum?
Arnþrúður segist aldrei geta treyst skoðanakönnunum eftir þetta og þetta hljóti að vera eitthvað sem stjórnmálaflokkarnir taki til alvarlegrar skoðunar. En, hver hefur nú helst verið að skína í þessum skoðanakönnunum? Eru það ekki sjálfur netflokkurinn, Píratar?

„Jahh, hefur einhver könnun verið gerð um fylgi Pírata sem ekki er netkönnun? Getur einhver svarað því? Mér finnst það vera spurning dagsins.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×