Viðskipti innlent

Þingmaður botnar ekkert í Imon-dómnum: „Kannski er maður bara fáviti“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður, og Brynjar Níelsson, þingmaður, sem starfaði lengi sem lögmaður, ræddu dóm Hæstaréttar í Imon-málinu í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í gær.

 

Í málinu var Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik. Auk hans hlutu þau Elín Sigfúsdóttir og Steinþór Gunnarsson refsingu; Elín var dæmd í 18 mánaða fangelsi og Steinþór í níu mánaða fangelsi.

Kristín sagðist tela að Hæstiréttur væri kominn út á hættulega braut með umræddum dómi hvað varðar skilgreiningu umboðssvika.

„Þar er komist að þeirri niðurstöðu að þeir einstaklingar sem voru ákærðir hafi ekki brotið lánareglur bankans. Þar er hins vegar komist að þeirri niðurstöðu jafnframt að þeir hafi gerst sekir um umboðssvik með því að brjóta einhverjar aðrar og jafnvel óskráðar reglur. Þá kemur náttúrulega strax upp í hugann þetta grundvallarsjónarmið um skýrleika refsiheimilda,“ sagði Kristín sem telur að með skilgreiningu dómsins á umboðssvikaákvæðinu leiki nú vafi á hvað sé refsivert og hvað ekki í því samhengi.

Brynjar tók undir orð Kristínar og sagðist hafa áhyggjur af því að svo virtist sem hætt sé að gera greinarmun á einkamálaréttarfari og sakamálaréttarfari.

„Ég hef bara verulegar áhyggjur af þessu og kann engar skýringar á þessu. Stundum erum við skömmuð fyrir það að gagnrýna dómstóla, að við séum að grafa undan þeim. Menn sem fara með mikilvægt vald verða auðvitað að þola málefnalega gagnrýni. Þannig horfi ég á þetta og er búinn að horfa þannig á þetta. Kannski vöknum við einhvern tímann upp við vondan draum, ég veit það ekki, kannski er maður bara fáviti, ég bara skil þetta ekki.“

Umræður Kristínar og Brynjars má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Telur fordæmisgildi Imon-dómsins ótvírætt

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að Hæstiréttur fallist í langflestum atriðum á viðhorf ákæruvaldsins í Imon-málinu svokallaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×