Enski boltinn

Yfirmaður enska sambandsins: Mourinho átti að biðja Evu afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Greg Dyke, yfirmaður enska knattspyrnusambandsins gagnrýndi Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, fyrir framgöngu sína í máli læknisins Evu Carneiro þrátt fyrir að portúgalski stjórinn hafi sloppið við refsingu hjá sambandinu.

Aganefnd enska sambandsins taldi Jose Mourinho saklausan af því að hafa mismunað Evu Carneiro með því að úthúða henni í leik Chelsea og Swansea fyrr í vetur. Mourinho lét hana bæði  heyra það bæði inn á vellinum sem og að gagnrýna hana eftir leikinn.

Eva Carneiro fór þá inná ásamt sjúkraþjálfara til að huga að Edin Hazard í uppbótartíma þegar Chelsea-liðið var þegar orðið manni færri í leiknum og var að reyna að fá meira út úr leiknum.

Hazard þurfti því að fara útaf vellinum sem þýddi að Chelsea-liðið var níu á móti ellefu. Mourinho varð mjög reiður og sakaði Evu um barnaskap og lítinn leikskilning en það var þó dómari leiksins sem kallaði á aðstoð frá læknaliði Chelsea.

Mourinho lét ekki þar við sitja heldur mátti Eva Carneiro, starfandi aðallæknir liðsins, ekki koma nálægt Chelsea-liðinu í framhaldinu hvort sem það var á æfingum eða í leikjum. Eva ákvað síðan að hætta störfum hjá félaginu þegar Chelsea bauð henni að koma "til baka" í sitt starf.

„Ég held að Mourinho komi ekki vel út úr þessu máli. Hann gerði greinilega mistök í hita leiksins og hefði átt að segja það strax og biðjast síðan afsökunar," sagði Greg Dyke í bréfi til stjórnarmanna enska sambandsins en BBC sagði frá því.

„Hann sagði þess í stað mjög lítið og Frú Carneiro missti starfi sitt," bætti Dyke við.

Það var áhorfandi á leiknum sem kvartaði við enska sambandið vegna framkomu Jose Mourinho gagnvart Evu og sambandið skoðaði því málið frekar. Jose Mourinho slapp eins og áður sagði við refsingu.

„Okkar fólk hefur rannsakað málið og þó að Herra Mourinho hafi ekki brotið neinar reglur þá sýndi hann greinilega dómgreindarleysi og óheppilega hegðun á almannafæri," skrifaði Greg Dyke í bréfið sitt.


Tengdar fréttir

Mourinho ætti að biðja hana afsökunar

Sú ákvörðun Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, að banna lækni Chelsea-liðsins, Evu Carneiro, að koma nálægt liðinu á æfingum, leikjum eða á hóteli liðsins, hefur vakið upp hörð viðbrögð á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×