Innlent

Tólf ekki enn í skóla

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Snærós Sindradóttir skrifa
Útlendingastofnun óskaði ekki eftir þjónustu frá Hafnarfirði vegna hælisleitenda í nýrri móttökustöð í Bæjarhrauni þar til í síðustu viku. Nánar tiltekið 1. október.

Enn bíða tólf börn sem hafa stöðu hælisleitenda þess að hefja skólavist í Hafnarfirði. Fimm börn hófu skólagöngu sína greiðlega í Reykjavík eftir að Útlendingastofnun sá að sér og sótti um skólavist fyrir börnin. Sum barnanna fóru í skólann strax á föstudegi en önnur í gær, mánudag.

Stofnunin hafði látið hjá líða að sækja um skólavist fyrir börnin vegna anna þrátt fyrir ítrekaðar áminningar frá lögfræðingi Rauða krossins og Umboðsmanni barna.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að Útlendingastofnun hafi haft samband við skóla í bænum 1. október vegna skólavistar barnanna. Þar sem Útlendingastofnun og Hafnar­fjarðar­bær hafi ekki gert með sér samkomulag um þjónustu taki tíma að leysa málið. Þó sé stefnt að því að börnin geti hafið skólagöngu innan fárra daga.

„Útlendingastofnun kemur ekki beinlínis að skólagöngu barnanna, túlkamál og annar stuðningur kemur því í hlut skólanna sjálfra. Stofnunin mun aftur á móti vinna með skólunum í að koma þessum atriðum í réttan farveg auk þess að standa straum af mestum eða öllum kostnaði við skólagöngu barnanna. Þá mun stofnunin eftir sem áður hafa milligöngu um að útvega nauðsynlega þjónustu, læknisaðstoð og annan stuðning,“ segir verkefnastjóri hælissviðs hjá Útlendingastofnun, Skúli Á Sigurðsson. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×