Enski boltinn

Eva búin að fá nóg af Jose Mourinho | Hætt hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eva Carneiro í vinnunni hjá Chelsea.
Eva Carneiro í vinnunni hjá Chelsea. Vísir/Getty
Eva Carneiro, hinn 42 ára gamli læknir knattspyrnuliðs Chelsea, hefur ákveðið að yfirgefa félagið aðeins sex vikum eftir að knattspyrnustjórinn Jose Mourinho gagnrýndi hana opinberlega.

Jose Mourinho var mjög ósáttur með það þegar Carneiro fór inná völlinn í uppbótartíma á leik Chelsea og Swansea á dögunum. Það gerði hún að beiðni dómarans og til þess að huga að Edin Hazard, leikmanni Chelsea. Með henni fór sjúkraþjálfarinn Jon Fearn.

Portúgalski stjórinn gagnrýndi Evu meðal annars fyrir lítinn leikskilning og barnalega hegðun en af því að Eva fór inná völlinn þá þurfti Hazard að fara útaf og bíða eftir leyfi dómarans til að snúa aftur inn á völlinn. Chelsea var því bara með níu menn inná vellinum þar sem að markvörðurinn Thibaut Courtois hafði áður fengið rautt spjald.

Eva Carneiro var ekki rekin úr starfi en fékk stöðulækkun hvað það varðar að hún mátti ekki fylgja liðinu í næstu leikjum eða mæta á æfingar liðsins.

Chelsea bað Evu Carneiro að koma aftur til starfa en samkvæmt frétt á BBC þá hafnaði hún því boði og ætlar að leita réttar síns.

Enska knattspyrnusambandið er enn að rannsaka það hvort að Jose Mourinho hafi kallað óviðeignandi og móðgandi orðum að henni þegar hann gjörsamlega missti sig á hliðarlínunni.


Tengdar fréttir

Mourinho ætti að biðja hana afsökunar

Sú ákvörðun Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, að banna lækni Chelsea-liðsins, Evu Carneiro, að koma nálægt liðinu á æfingum, leikjum eða á hóteli liðsins, hefur vakið upp hörð viðbrögð á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×