Skoðun

Dagar mínir sem Sjálfstæðismaður

Gísli Gautason skrifar
Sunnudaginn 20. september barst mér símtal frá gömlum kunningja úr framhaldsskóla. Sá hinn sami hringdi til að segja mér frá því að hann væri í framboði til stjórnar Heimdalls, ungmennahreyfingar Sjálfstæðisflokksins, og spurðist kunninginn fyrir hvort ég væri ekki til í að kíkja niður í Valhöll og kjósa framboðið. Ég svaraði því að ég væri ekki skráður í flokkinn og því gæti ég lítið sem ekkert gert fyrir hann. Lausnin var hins vegar sú að hægt væri að skrá mig í flokkinn þá stundina og skrá mig út daginn eftir kosningar. Ég játaði og þannig varð ég skráður inn og út aftur án þess að nokkurn tíma skrifa undir nokkurn pappír eða sýna skilríki. Ég hafði gert eitthvað sem að ég hélt að ég myndi aldrei fyrir mitt litla líf gera, ég hafði gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrir það fyrsta þá er ég ekki Sjálfstæðismaður og hef ég aldrei áður verið skráður í stjórnmálaflokk fyrir þennan tímapunkt. Sjálfum finnst mér að fólki eigi að taka meðvitaðar ákvarðanir en kjósa ekki blint. En í þetta skiptið lék ég svo sannarlega hlutverk blinda mannsins þar sem ég hafði lofað atkvæði mínu upp á gamlan vinskap. Eftir á litið varð ég furðu lostinn yfir því hversu auðveldlega ég snéri baki við þessari sannfæringu minni en mér til varnar þá þjáðist ég einnig af svakalegri forvitni. Undanfarið hefur þessi gamla sjálfstæðismaskína hlotið hvert höggið af fætur öðru frá fjölmiðlum og almenningi fyrir getuleysi og spillingu. Mig langaði hins vegar rétt að líta undir vélarhlífina og sjá hvað væri á seiði.

Á mánudeginum fékk ég skilaboð um að ég mér yrði skutlað í Valhöll og einnig fékk ég þakkir fyrir að bjóðast til að greiða atkvæði. Það var greinilegt að atkvæði mitt væri allavega bensínpeningsins virði og ég fór að velta fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk væri tilbúið að ganga svona langt eftir einu atkvæði.

Loksins var komið að kjördegi og spennan magnaðist. Farið kom heim að dyrum til að ná í mig og á leiðinni spjallaði ég við bílstjórann. Það var þá sem að ég fór fyrst að átta mig á því hversu klikkað þetta dæmi var. Bílstjórinn var, eins og ég, alls engin Sjálfstæðismaður, heldur hafði hann einungis gengið stuttlega í flokkinn til að styðja besta vin sinn. Við vorum heldur ekkert einir um það því hann hafði verið að skutla frá því að kjörkassarnir opnuðu.

„Fíflakosningar og drulluslagur.“ Þetta voru hans orð en ég átti eftir að átta mig á því seinna meir. Á leiðinni pikkuðum við upp frænku annars frambjóðenda sem hafði álíka litla hugmynd varðandi þessar kosningar og ég sjálfur. Við fengum þá báðir skíringar fyrir símtölunum, skráningunni og bílfarinu. Ég komst að því að að mótframboðið hefði sent menntaskólakrökkum í Reykjavík SMS skilaboð, hvatt þau til að skrá sig tímabundið í flokkinn, greiða rétt atkvæði og fá að launum hamborgara og bjór. Hitt framboðið hafði brugðist við og hringt í vini, kunningja, ættingja, kennara og þar fram eftir götunum. Ég varð ekki allt í einu vonsvikinn með þessa bílferð þar sem ég hefði nú frekar kosið borgara og bjór fram yfir far í þessum þó svo fína kagga. Ég held ég þurfi varla að taka það fram að krakkar í menntaskóla eru flestir milli 16 og 20 ára og því undir lögaldri. Gaman að sjá hvað frambjóðendurnir báru mikla virðingu fyrir landslögum og bera greinilega hag ungmenna fyrir brjósti.

Við komuna í á kjörstað var okkur réttir miðar með nöfnum framboðanna en hvergi voru nein stefnumál að sjá enda frétti ég fljótt að í allri baráttunni hefðu stefnumál lítið komið upp á meðal kjósenda. Einnig er ekki neitt að finna á Facebook-síður Heimdallar um kosningarnar eða framboðin sem er mjög hentugt. Þar sem ég gekk inn í troðfullan salinn í Valhöll fylltist ég tilfinningu sem ég hafði aldrei fundið til áður og þar sem að ég á það til að hugsa sjálfur hlutina of langt þá gerði ég nákvæmlega það. Þessi flokkur sem að ég hafði svo léttilega gengið inn í var ekki lengur sama fyrir mynd lýðræðis og sjálfstæðis. Ég fékk strax ógeð, ekki bara á flokknum sjálfum heldur þessari aðferðafræði og á sjálfum mér fyrir að greiða atkvæði blint vera hluti af þessari rafhlöðu. Ef ég væri ekki sagnfræðingur segði ég sennilega að Jón Sigurðsson hefði snúið sér við í gröfinni, ég er hins vegar viss um að Davíð Oddsson og snéri sér í stól einhvers staðar í byggingunni.

Salurinn var fullur af menntaskólakrökkum tilbúin að gefa atkvæði sitt fyrir áfengi og mat. Einnig voru þar fleiri vinir og kunningjar frambjóðenda sem biðu þess að ljúka þriggja daga flokksgöngu sinni daginn eftir líkt og ég sjálfur, gott ef ég sá ekki einhvern reyna að skrá hundinn sinn til kosninga. Þetta var eins og að sjá hóp af blindu fólki dæma listdans á skautum og ég skammaðist mín fyrir veru minni þarna. Ég var ekki að taka meðvitaða ákvörðun og ég vissi það og þeir sem að kjósa upp á vinskap eða gott grillpartý og segja sig svo úr flokknum eru ekki þeir best fallnir til að ákveða hverjir séu hæfastir til stjórnar. Djúpt hugsi greiddi ég það atkvæði sem að ég hafði lofað en ég veit hreint ekki hvort ég hafi kosið rétt (eins og upplýstum einstaklingi ber að vita).

Er það lýðræði ef að allir kjósa með því að taka einn ugla sat á kvisti yfir kjörseðlinum? Er það lýðræði ef að sá vinnur sem að getur gefið nógu mörgum far á kjörstað? Er lýðræði keppni í hver getur hellt flesta táninga fulla? Burt séð frá hver fer með sigurinn þá hlýtur sá sigur að vera frekar innantómur þegar að stór hluti kjósenda kaus þig bara því þú átt svo marga vini eða sú staðreynd að unglingar gera næstum hvað sem er fyrir frítt áfengi að þú ert tilbúin að brjóta lög til að tryggja atkvæði þeirra. Svo ekki sé minnst á ef að stór hluti kjósenda yfirgefur svo flokkinn daginn eftir. Það mætti halda að við værum stigin inn í House of Cards, eða Spilaborgina fyrir ykkur sem að horfið á þann þátt í ríkissjónvarpinu. Fyrir marga unglingana hefur þetta ef til vill verið eitt fyrsta skiptið sem að þau nýttu lýðræðislegan rétt sinn (þarft bara að vera 15 ára til að kjósa þarna) og hvað er verra en að hreinlega selja þitt fyrsta atkvæði.

Fyrir þá sem klóra sér í hausnum og skilja ekki hvernig þetta kjör hefði eðlilega átt að fara fram, þá skal ég útskýra, þar sem ég er greinilega svo fullur ástríðu til að bæta alla galla míns skammtímaflokks. Eðlilega hefðu framboðin tvö átt að setja sér einhverjar stefnur og stutta ferilskrá allra frambjóðenda. Senda tölvupósta á þá flokksmenn sem voru þá þegar í flokknum, kynna sig og sínar stefnur og hvetja þá til að kjósa. Samhliða því bjóða nýju og ungu fólki inn á fundi og fræða það um bæði framboðin. og hér minni ég enn og aftur á að ég finn hvergi neinar stefnur né upplýsingar um kosningarnar á Facebook-síðu Heimdalls. Síðan bíða kjördags og úrslita hans og þannig leyfa flokksmönnum að kjósa fólk og hugmyndir sem að þeim þykir henta flokknum. Sigurvegarar kosninganna yrðu kosnir vegna færni og stefnu sinnar.

Það að grasrótahreyfing eins virtasta flokks landsins hafi nálgast lýðræðislegar kosningar á þennan hátt er hreinlega til skammar. Að komast í stjórn ungmennahreyfingar ríkistjórnarflokksins er þung fjöður í hvers manns hatti og auðvitað stefnir hluti þessa fólks á meiri íhlutun í íslenskri pólitík. Því hef ég miklar áhyggjur yfir því að framtíð íslenskra stjórnmála ef að ekki er tekið á þessu, það má líka vel vera að þetta líðist í öðrum ungliðahreyfingum.

Ég held að flestir frambjóðenda hafi hins vegar ekki áttað sig á því hversu spillt þetta var eða bara hunsað eigin sannfæringu. Ef til vill eru þetta aðferðir sem að flokkurinn kennir í leit sinni að leiðtogum, fólki sem að vill stjórna nógu mikið að það beygir reglurnar aðeins. Í rauninni er þetta mjög lítið og þröngt dæmi og margir myndu seiga mér að vera ekki að gera of mikið mál úr þessu, en ég vil þá benda á að í ungliðahreyfingunum eru framtíðar stjórnmálamenn þessa lands. Því ætti þessi gagnrýni ekki aðeins að gagnast öllum þeim sem að stefna á framtíð í stjórnmálum, heldur líka flokknum sjálfum.

Inn í flokknum er fullt af frábæru og hæfileikaríku fólki sem að ég veit að er fært að eiga margar frábærar hugmyndir og hugsjónir. Ég vona heitt og innilega að flokkurinn eigi eftir að batna í hag þessa fólks því að hugmyndir og gáfur dafna ekki í því umhverfi sem að ég hef lýst hér fyrir ofan. Gagnrýni er ávallt að hinu góða og vonandi náið þið að forðast slíkar „fíflakosningar og drulluslagi“ í framtíðinni.

Gísli Gauti birti pistillinn á Facebook-síðu sinni og gaf Vísi góðfúslegt leyfi til að birta hann. Áður hafði Nútíminn birt pistilinn.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×