Innlent

Leyfa starfsmönnum borgarinnar að klára hádegismatinn

Atli Ísleifsson skrifar
Athugasemdir hafa borist um að einstaka verk geti talist til kynferðislegrar áreitni á vinnustað. Því hafi verið ákveðið að sýningin verði ekki opnuð fyrr en að matmálstíma loknum.
Athugasemdir hafa borist um að einstaka verk geti talist til kynferðislegrar áreitni á vinnustað. Því hafi verið ákveðið að sýningin verði ekki opnuð fyrr en að matmálstíma loknum. Vísir
Opnunartíma listsýningarinnar Kynleika, sem hluti er af Afrekasýningu kvenna á Íslandi í Ráðhúsi Reykjavíkur, hefur verið breytt og verður framvegis opin frá klukkan 13 til 19.

Sýningin er haldin í mötuneyti starfsfólks borgarinnar og segir í tilkynningu frá borginni að hún hafi sætt talsverðri gagnrýni. Athugasemdir hafi borist um að einstaka verk geti talist til kynferðislegrar áreitni á vinnustað. Því hafi verið ákveðið að sýningin verði ekki opnuð fyrr en að matmálstíma loknum.

Í tilkynningunni segir að í sýningunni kanni listamennirnir mörk líkamans og sjálfið í samfélagi sem móti stöðugt kynin með einum eða öðrum hætti. „Listinni er ætlað að kalla fram margskonar tilfinningar og greinilegt að listamönnum Kynleika hefur tekist það með ágætum. Verkin hafa vakið verðskuldaða athygli, en þau eru krefjandi og upplifun fólks hefur ekki bara verið jákvæð eða góð.“

Þá segir að eftir sem áður sé fólk hvatt til að heimsækja sýninguna sem vekji upp áleitnar spurningar og vangaveltur um samfélagið og hlutverk kynjanna í því.

Sýningarstjórar munu bjóða upp á leiðsögn um sýninguna sunnudaginn 20. september kl. 14 og sunnudaginn 27. september kl. 14.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×