Innlent

Varnarmálin aftur á dagskrá

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri á skrifstofu varnarmála í utanríkisráðuneytinu, heilsar Bob Work, aðstoðarvarnarmála­ráðherra Bandaríkjanna, á Keflavíkurflugvelli í vikunni.
Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri á skrifstofu varnarmála í utanríkisráðuneytinu, heilsar Bob Work, aðstoðarvarnarmála­ráðherra Bandaríkjanna, á Keflavíkurflugvelli í vikunni. Mynd/Glenn Fawcett (DoD)

Farið er fram á 1.042,2 milljónir króna undir liðnum „varnarmál“ í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár.

„Málefnaflokkurinn Varnarmál féll brott úr ráðuneytiskafla utanríkisráðuneytisins í fjárlögum 2011 er fjárheimildir hans voru millifærðar frá ráðuneytinu,“ segir í frumvarpinu. Verkefnin voru flutt til innanríkisráðuneytisins að mestu, auk smærri tilfærslna yfir á aðra liði utanríkisráðuneytis og til Alþingis.

Lagt er til að 793,1 milljónar króna fjárheimild vegna varnartengdra verkefna verði flutt frá innanríkisráðuneyti yfir á varnarmál hjá utanríkisráðuneyti. Vísað er til samnings utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis frá 30. júlí 2014 um að ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum. „Með þessum samningi er fest í sessi formlegt samskipta- og samráðsferli milli forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis um öryggis- og varnarmál. Utanríkisráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd samningsins,“ segir í fjárlagafrumvarpinu.

Þá er lagt til að framlög Íslands til öryggis- og varnarmála verði aukin um 213 milljónir króna. „Rík áhersla hefur verið á að bandalagsríki NATO auki framlög sín til sameiginlegra varna bandalagsins, sérstaklega í ljósi þróunar í öryggismálum í Evrópu,“ segir í frumvarpinu, en að auki er svo lagt til að 21 milljón króna fari í að styðja við sjóði sem verið sé að setja upp til að styrkja uppbyggingu í Úkraínu og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.