Innlent

Kristján Guy Burgess ráðinn framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kristján Guy Burgess
Kristján Guy Burgess
Samfylkingin hefur ráðið Kristján Guy Burgess sem framkvæmdastjóra. Hann var valinn úr stórum hópi umsækjenda til að stýra daglegum rekstri flokksins og hafa yfirumsjón með málefnastarfi og stefnumótun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.

„Það var ekki auðvelt að velja úr þeim góða hópi sem gaf kost á sér til starfa fyrir Samfylkinguna. Það er mikill fengur að Kristjáni. Hann hefur skýra sýn um hvernig best er hægt að auka áhrif umbótasinnaðra afla og hann hefur sýnt í fyrri störfum að hann hefur lag á að vinna með fólki, leysa flókin verkefni og koma hlutum í verk. Við hlökkum til samstarfsins“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar um ráðninguna.

Kristján hefur að undanförnu starfað fyrir Atlantshafsbandalagið sem fulltrúi þess gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York. Árin 2009-2013 var hann aðstoðarmaður utanríkisráðherra og frá 2005-2009 rak hann ráðgjafarfyrirtæki í alþjóðamálum. Hann býr yfir áralangri reynslu af störfum við fjölmiðla og hefur komið að margvíslegu kosningastarfi. Kristján er með BA próf í sagnfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og meistarapróf í alþjóðastjórnmálum og alþjóðalögum frá háskólum í London og Kosta Ríka. Hann mun hefja störf 1. nóvember.

Kristján er í sambúð með Rósu Björk Brynjólfsdóttur og þau eiga þrjú börn á aldrinum 2-11 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×