Erlent

Leiðtogi ISIS nauðgaði bandarískum gísl samtakanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al Baghdadi og Kayla Mueller.
Abu Bakr al Baghdadi og Kayla Mueller. Vísir/AFP
Abu Bakr al Baghdadi, leiðtogi samtakanna Íslamskt ríki, er sagður hafa nauðgað gísl samtakanna ítrekað áður en hún lést. Kayla Mueller var um tíma haldið á heimili Abu Sayyaf, fjármálastjóra ISIS, og eiginkonu hans. Þangað kom Baghdadi reglulega í heimsókn.

Fjölmargar konur hafa verið í haldi í umræddu húsi og voru margar þeirra giftar vígamönnum ISIS. Á einu tímabili voru fjórar táningsstúlkur með Mueller í haldi og var þeim einnig nauðgað. Tveimur þeirra tókst þó að flýja og segja þær að Mueller hafi reynt að verja þær frá vígamönnum og öðrum.

Á vef Independent er frásögn stúlknanna gerð skil og þar segir að þær hafi beðið Mueller um að flýja með sér, en hún hafi neitað. Sagði hún að útlit hennar myndi gera þeim erfitt fyrir á flóttanum. Stúlkurnar sögðu meðal annars starfsmönnum leyniþjónustna Bandaríkjanna sögu sína, sem staðfestu í gær að hún hefði verið sannreynd. Fjölskylda Mueller veit einnig af nauðgununum.

Mueller lést í haldi ISIS en ekki liggur fyrir við hvaða aðstæður. Andlát hennar var tilkynnt í febrúar. Hryðjuverkasamtökin segja að hún hafi fallið í loftárás Jórdana en það hefur ekki verið staðfest.

Í maí réðust bandarískir sérsveitarmenn á heimilið og felldu Abu Sayyaf og tóku eiginkonu hans höndum. Hún mun fara fyrir dómstóla í sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Írak. Sérsveitarmennirnir frelsuðu þar að auki fjölda stúlkna sem tilheyra Jadsídum af heimilinu.


Tengdar fréttir

Bandaríski gíslinn látinn

Kayla Jean Mueller, bandarísk kona sem samtökin Íslamska ríkið hafa haldið gíslingu í Sýrlandi síðustu tvö ár, er látin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×