Innlent

Brú yfir Vatnsdalsá hrundi undan flutningabíl

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan á Blönduósi tók þessa mynd af vörubílnum en það mun reynast ansi mikið verk að ná bílnum af vettvangi.
Lögreglan á Blönduósi tók þessa mynd af vörubílnum en það mun reynast ansi mikið verk að ná bílnum af vettvangi. Vísir/Lögreglan á Blönduósi

„Það var bíll að fara yfir brúna og brúin lét sig, bíllinn er á brúnni og brúin er í ánni,“ segir Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Blönduósi, um brúna yfir Vatnsdalsá við Grímstungu í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, sem hrundi undan flutningabíl rétt fyrir hádegi í dag. Bílstjórinn slapp með minniháttar áverka.

Kristján segir bílinn hafa verið að flytja leir á stað þar sem verið er að vinna efni í vegagerð. Brúin er á alfaraleið og segir Kristján hana ekki hafa borið þess merki að vera ótrygg. „Það held ég ekki. Hún er náttúrlega orðin gömul, þeir voru að keyra yfir hana í gær og hún hefur bara gefið sig,“ segir Kristján sem telur brúna vera orðna sextíu ára gamla.

Bílarnir breyst töluvert á 60 árum
„Á sextíu árum hafa bílarnir breyst töluvert mikið, sérstaklega flutningabílar, komnir með mörg dekk í dag. Þetta voru bara tveggja hásinga bílar fyrir sextíu árum og þekktust varla þriggja hásinga bílar nema einhverjir her trukkar,“ segir Kristján.

Hann segir þetta atvik ekki hafa stór áhrif á sveitina en töluverð áhrif á för ferðamanna. „Það var hægt að hringkeyra Vatnsdalinn en það er ekki hægt lengur. Menn fara bara eftir veginum út á þjóðveg, sitthvoru megin við ána.“

Hann á ekki von á öðru en að það verði byggð önnur brú á þessum stað.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.