Íslenski boltinn

Atli Viðar skilinn eftir í London vegna veikinda | Guðmann og Lennon fjarri góðu gamni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Atli Viðar í leik gegn Keflavík í sumar.
Atli Viðar í leik gegn Keflavík í sumar. Vísir/getty
Atli Viðar Björnsson, framherji FH, varð eftir í London í ferðalagi liðsins til Bakú í Aserbaidídsjan en hann veiktist á leiðinni og verður hann því ekki með í leik liðanna annað kvöld. Þetta staðfesti Atli í samtali við mbl.is í dag.

Var ákvörðun tekin um að skilja Atla eftir í London til þess að vernda aðra leikmenn liðsins undan smiti en Inter Bakú leiðir 2-1 eftir fyrri leik liðanna í Kaplakrika. Það er því að miklu að keppa en sigurvegari einvígisins mætir spænska liðinu Athletic Bilbao í næstu umferð.

„Ég nældi líklegast í einhvern vírus og það er ekki hægt að segja að heilsan sé góð. Í fluginu út fór mér að líða illa og ég var einfaldlega búinn á því við komuna á flugvöllinn. Ég kemst líklega heim í dag, ég var í engu standi til að ferðast með liðinu áfram. Ég hef rétt komið niður einni ristaðri brauðsneið á síðasta sólarhring,“ sagði Dalvíkingurinn í samtali við mbl.is.

Atli Viðar er ekki eini leikmaðurinn sem verður fjarverandi annað kvöld en Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, staðfesti í samtali við mbl.is að hvorki Guðmann Þórisson né Steven Lennon hafi ferðast með liðinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×