Innlent

Tæplega helmingur lífeindafræðinga sagt upp störfum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Samstöðufundur lífeindafræðinga fyrir þremur árum. Þeir eru enn ósáttir með kaup og kjör og hafa margir hverjir sagt upp,
Samstöðufundur lífeindafræðinga fyrir þremur árum. Þeir eru enn ósáttir með kaup og kjör og hafa margir hverjir sagt upp, vísir/gva
Sýklafræðideild Landspítalans lýsir yfir áhyggjum sínum vegna uppsagna lífeindafræðinga á deildinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá deildinni. Lífeindafræðingar eru félagsmenn í BHM og bíða niðurstöðu gerðardóms í kjaradeilu

Alls hafa tólf starfsmenn deildarinnar, af 26, sagt upp störfum. Yfirlífeindafræðingur deildarinnar, Erla Sigvaldadóttir, telur deildina verða óstarfhæfa ef uppsagnirnar ganga eftir.

Erla Sigvaldadóttir
„Það bættist ein uppsögn við í gær úr berklarannsóknarhópnum og þar með hafa allar fjórar sagt upp,“ segir Erla í samtali við Vísi. Báðir gæðastjórarnir og tölvulífeindafræðingarnir hafa sagt upp og aðeins verður eftir einn í sníkjudýrarannsóknum ef fram heldur sem horfir. Að auki stefnir í að kennslulífeindafræðingurinn hverfi á braut.

„Ég sendi stjórnendum bréf þar sem ég lýsti yfir áhyggjum með stöðu mála. Þetta er allt fagfólk sem getur auðveldlega fengið vinnu hérlendis eða erlendis og þarna myndi áratuga starfsreynsla tapast. Það tekur einnig langan tíma að þjálfa fólk upp og ekki sjálfgefið að fólk að utan vilji koma.“

Eins og áður segir óttast Erla að deildin verði óstarfhæf. „Sum sýni er ekki hægt að senda út þar sem þau eyðileggjast á leiðinni en önnur væri hægt að greina erlendis með tilheyrandi kostnaði. Einnig er fjöldi sýna sem þarf að greina eins fljótt og auðið er. Deildin heldur utan um faraldfræði alvarlegra sýkinga og ónæmra baktería, ekki aðeins á spítalanum heldur einnig á landsvísu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×