Körfubolti

Kanalausir Haukar á næsta tímabili: Spennandi tilhugsun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þeir leikmenn sem skrifuðu undir í dag. Pálína er lengst til hægri og Jóhanna önnur frá hægri.
Þeir leikmenn sem skrifuðu undir í dag. Pálína er lengst til hægri og Jóhanna önnur frá hægri. Vísir/Andri Marinó
Pálína Gunnlaugsdóttir segir að hún hafi heillast af þeirri hugmynd að byggja upp lið á íslenskum leikmönnum í Domino's-deild kvenna.

Pálína samdi í dag við sitt gamla félag, Hauka, til næstu tveggja ára. Jóhanna Björk Sveinsdóttir samdi við félagið til eins árs en hún er einnig að koma aftur í Hafnarfjörðinn eftir stutta dvöl hjá Breiðabliki.

„Það var tímabært að koma aftur heim,“ segir Pálína sem fór frá Haukum árið 2008. Ári áður hafði Helena Sverrisdóttir haldið til Bandaríkjanna í nám en hún er kominn aftur í Hauka sem kunnugt er.

„Við spiluðum saman upp alla yngri flokkana en ég hef ekki spilað með henni síðan hún fór út. Við erum aðeins þroskaðri í dag og betri í körfubolta,“ segir hún.

„Haukar eru með gott lið - fullt af ungum og efnilegum leikmönnum og svo baráttujaxla líka. Haukar hafa gefið út að vera ekki með erlendan leikmann og það finnst mér spennandi tilhugsun. Ég hef aldrei unnið neitt nema með erlendum leikmanni og væri gaman að byggja upp lið á íslenskum leikmönnum og vinna einn stóran titil.“

Helena segir að það sé stefnan að spila án bandarísks leikmanns þó svo að það gæti breyst. „Við teljum að við getum náð langt með þessar stelpur og ég trúi ekki öðru en að það gangi eftir að klára tímabilið með þessum leikmönnum sem eru í liðinu í dag,“ segir Helena.

„Við höldum þessu opnu um áramótin og skoðum stöðuna þá. En við viljum prófa þetta og af hverju ætti það ekki að ganga?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×