Innlent

Nálgunarbann stytt úr sex mánuðum í fjórar vikur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Konan lýsti fjórum skiptum þar sem maðurinn hafði beitt hana líkamlegu ofbeldi sem fólst meðal annars í því að hann sló og sparkaði í hana og kýldi hana ítrekað í andlitið.
Konan lýsti fjórum skiptum þar sem maðurinn hafði beitt hana líkamlegu ofbeldi sem fólst meðal annars í því að hann sló og sparkaði í hana og kýldi hana ítrekað í andlitið. vísir/getty
Hæstiréttur hefur stytt nálgunarbann sem Lögreglustjórinn á Suðurlandi úrskurðaði mann í úr sex mánuðum í fjórar vikur. Héraðsdómur Suðurlands hafði áður staðfest úrskurð lögreglustjórans en maðurinn kærði þá ákvörðun til Hæstaréttar. Gildir nálgunarbannið frá 11. júní síðastliðnum.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að manninum hafi verið gert að yfirgefa heimili sitt þar sem hann bjó ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum, 5 og 9 ára. Hafi lögreglustjóranum á Suðurlandi borist tilkynning frá félagsyfirmálavöldum um slæmar aðstæður á heimilinu vegna ofríkis mannsins og ítrekaðs ofbeldis gegn konunni, sem börnin urðu vitni að.

Lögreglan tók í kjölfarið skýrslu af konunni og kom þá fram að ofbeldi hafi verið viðvarandi í sambandi hennar og mannsins síðustu ár. Lýsti hún fjórum skiptum þar sem maðurinn hafði beitt hana líkamlegu ofbeldi sem fólst meðal annars í því að hann sló og sparkaði í hana og kýldi hana ítrekað í andlitið.

Skýrslur voru einnig teknar af þremur vitnum sem öll staðfestu framburð konunnar. Maðurinn sagði hins vegar hjá lögreglu að vitnin væru að ljúga og hafnaði hann öllum ásökunum um ofbeldi á heimilinu. Hann sagði hins vegar konu sína „uppstökka og ofbeldisfulla gagnvart honum sjálfum og börnunum og að hún beiti þau öll m.a. líkamlegu ofbeldi og þvingunum,” eins og segir í dómi héraðsdóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×