Innlent

Annasamt hjá Stígamótum í kjölfar Beauty Tips byltingarinnar

Viktoría Hermannsdóttir skrifar

Annasamt hefur verið hjá Stígamótum í kjölfar hinnar svokölluðu Beauty Tips byltingar og fjölmargir þolendur hafa haft samband síðustu daga til þess að leita sér aðstoðar vegna ofbeldis sem þeir hafa orðið fyrir.

Undanfarna daga hafa hundruð kvenna sagt frá reynslu sinni af kynbundnu ofbeldi inn á Facebook hópnum Beauty Tips.

„Eftir að þetta kom upp á Facebook, þá hefur síminn varla þagnað, netspjallið okkar, tölvupósturinn og allt. Þetta hefur skilað sér beint hingað inn,” segir Þórunn Þórarinsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum. Rætt var við hana í kvöldfréttum Stöðvar 2 en myndbandsútgáfa fréttarinnar er væntanleg á vefinn innan skamms.

Biðlistar eftir viðtölum hafa lengst og ráðgjafar vinna lengri vinnudaga til þess að reyna anna eftirspurninni. „Ég veit ekki hversu mikil aukning en við sjáum alveg beina tengingu við þessa miklu umræðu. Hún skilar sér beint hingað inn.”

Þórunn segir oft vera samhengi milli fjölmiðlaumfjöllunar um kynferðisofbeldi og aukinnar aðsóknar til Stígamóta. Það hafi til að mynda verið raunin eftir að mál tengd Karli Vigni Þorsteinssyni komu fram í kastljósið en þar voru flestir brotaþolar karlar.

„Svo núna eftir þessa umræðu og byltingu með Beauty Tips þá eru þetta konurnar sem hafa kannski verið að skrifa eða segja eða vinkonur sem skila sér hingað inn.“

Þórunn segir mikilvægt að færa ábyrgðina yfir á gerendur.

„Umræðan þarf að snúast um að það eru einhverjir sem eru að beita þessu ofbeldi. Og þetta er eins og við höfum alltaf sagt og höldum áfram að segja, þetta er samfélagslegt vandamál og þetta kemur öllum við.Við þurfum að að ákveða í hvernig samfélagi viljum við búa og hvaða hegðun við samþykkjum og hvað ekki. Og hver ber ábyrgðina á glæpum sem eru framdir.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.