Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - KR 2-2 | Guðjón Pétur ásinn í ermi Blika

Tómas Þór Þórðarson á Kópavogsvelli skrifar
Guðjón Pétur hefur komið að öllum þremur mörkum Blika í sumar.
Guðjón Pétur hefur komið að öllum þremur mörkum Blika í sumar. vísir/ernir
Breiðablik og KR skildu jöfn, 2-2, í annarri umferð Pepsi-deild karla í fjörugum leik á Kópavogsvelli í kvöld. Guðjón Pétur Lýðsson tryggði Blikum annað stigið með fallegu marki.

Breiðablik byrjaði leikinn mun betur. Heimamenn voru sprækir með Höskuld Gunnlaugsson, kantmanninn unga, eins og kálf að vori. Hann olli ákveðnum vonbrigðum í fyrsta leiknum gegn Fylki eftir gott undirbúningstímabili en spilaði vel framan af í kvöld.

Höskuldur skoraði einmitt fyrsta mark Breiðabliks með skalla eftir aukaspyrnu Guðjóns Péturs Lýðssonar inn á teiginn. Spyrnan hjá Guðjóni var frábær og minnsti maður vallarins fann sér pláss í teignum og skoraði á 10. mínútu, 1-0.

KR-ingar voru smá stund að átta sig en tóku völdin í leiknum eftir um 20 mínútna leik og sleppti í raun ekki takinu það sem eftir lifði leiksins. Blikar byrjuðu að bakka allt of snemma og buðu hættunni heim.

Gestunum úr Vesturbænum gekk illa að skapa sér færi til að byrja með. Uppspilið í gegnum miðjuna var ekkert sérstakt og vængmönnunum gekk illa að koma boltanum fyrir markið í hættuleg svæði.

Pressan skilaði sér þó í uppbótartíma í fyrri hálfleik þegar Arnór Sveinn Aðalsteinsson ætlaði að taka á móti fyrirgjöf frá hægri inn á teiginn. Fyrirliðinn náði ekki valdi á boltanum þannig Óskar Örn Hauksson skoraði af stuttu færi. Sárt fyrir Blika en sanngjörn staða.

Heimamenn voru engu skárri í byrjun síðari hálfleiks og áfram hélt pressa KR-inga. Óskar Örn Hauksson ógnaði sífellt og átti m.a. frábært skot upp í markvinkilinn sem Gunnleifur Gunnleifsson varði meistaralega. Gunnleifur virkar í flottu formi þó hann hafi fengið á sig tvö mörk í kvöld.

Eftir því sem á leið seinni hálfleikinn fór að slitna meira á milli varnar og miðju hjá Breiðabliki. KR fór að nýta sér svæðin betur og flott sókn gestanna skilaði marki á 70. mínútu.

Sören Frederiksen afgreiddi þá sendingu Gonzalo Balbi í netið með góðu skoti úr teignum, 2-1, en Balbi átti góðan dag og sýndi sparihliðarnar í sóknarleiknum sérstaklega. Sören átti einnig mjög góðan leik, en hann virðist ætla nýtast KR-liðinu vel.

En Breiðablik átti ás í ermi: Guðjón Pétur Lýðsson. Strax í næstu sókn átti hann fast skot af 25 metra færi sem Stefán Logi Magnússon hefði mögulega getað varið, en boltinn steinlá í netinu. Staðan orðin 2-2 og KR-ingar enn að fagna sínu marki.

Guðjón Pétur var ekki í byrjunarliði Breiðabliks í byrjun móts og var það ekki lungan af undirbúningstímabilinu. Hann er nú búinn að skora tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum liðsins og gefa eina stoðsendingu. Skýr skilaboð til þjálfarans og það verður ekki auðvelt fyrir Arnþór Ara Atlason að vinna sér sæti aftur í liðinu haldi Guðjón svona áfram.

Lokatölur, 2-2, í fínum fótboltaleik sem KR var betri aðilinn í. Lærisveinar Bjarna Guðjónsson hefðu getað gengið frá leiknum gegn FH með að skora á mikilvægri stundu og að sama skapi í kvöld náðu þeir ekki að loka dæminu.

Í heildina spilaði KR liðið vel, sérstaklega í seinni hálfleik, en stig er uppskeran. Blikar taka stingu úr því sem komið var.

Bjarni: Stýrðum því sem fram fór á vellinum

"Ég er mjög svekktur. Mér fannst við, í seinni hálfleik sérstaklega, stjórna leiknum," sagði svekktur Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, við Vísi eftir leik.

"Í upphafi voru kannski meiri kýlingar og læti en mér fannst við samt í ágætis málum fyrir utan þetta fasta leikatriði sem við fáum markið á okkur úr. Í seinni hálfleik fannst mér við stýra því fram fór á vellinum."

KR byrjaði leikinn ekki vel og fékk á sig mark eftir tíu mínútur.

"Við vorum svolítið hægir í gang. Það ætluðum við auðvitað ekki að gera en við unnum okkur inn í leikinn. Það er heldur ekki hægt að taka allt frá Blikunum. Þetta er hörku gott lið. Ég var tiltöluega sáttur með seinni hálfleikinn," sagði Bjarni, en hefði hann viljað sjá Stefán Loga gera betur í jöfnunarmarkinu?

"Auðvitað hefði maður viljað að hann hefði varið það, en ég á eftir að sjá það aftur," sagði Bjarni.

KR fékk færi í fyrstu umferð til að ganga frá FH-liðinu og í kvöld kemst það yfir en missir leikinn niður í jafntefli.

"Það er ekki hægt að bera þetta saman því að spila við FH er svolítið sérstakt. Seinni hálfleikurinn hér var góður og við vitum að þetta býr í liðinu. Við þurfum að vera aðeins kraftmeiri og ákveðnari í föstum leikatriðum," sagði Bjarni, en KR skoraði mark sem dæmt var af eftir horn.

"Það var erfitt að sjá á hvað var dæmt. Mér fannst við eiga meira skilið úr leiknum. Við tökum eitt stig á erfiðum útivelli og höldum áfram," sagði Bjarni Guðjónsson.

Arnar: Menn þurfa að þora að gera mistök

"Mér fannst við byrja fyrri hálfleikinn vel. Eftir markið átti KR leikinn til enda fyrri hálfleiks," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, við Vísi eftir leik.

"Þeir voru ekki að skapa mikið en voru með boltann allan tímann. Við þorðum ekki að halda boltanum og menn buðu sig ekki. Þeir svolítið völtuðu yfir okkur."

KR hélt áfram traustum tökum á leiknum í seinni hálfleik þó Blikar hafi jafnað.

"Mér fannst seinni hálfleikurinn ívið jafnari en KR-ingarnir voru sterkari. Mér fannst við samt koma vel inn í leikinn og við unnum okkur í hann," sagði Arnar.

"Menn voru aðeins að láta finna fyrir sér í seinni hálfleik. Ég sagði við þá í hálfleik að þetta er fullorðinsíþrótt og menn þurfa að taka á því. Menn þurfa að þora að taka á móti bolta og þora að gera mistök."

"Ég var samt ánægður með hvernig liðið kom til baka eftir að lenda undir. Við svöruðum því og eftir það hefði þetta getað dottið báðu megin. Auðvitað er maður aldrei sáttur við eitt stig en í fljótu bragði getur maður verið sáttur við það núna," sagði Arnar Grétarsson.

 

Guðjón: Þetta var svo ógeðslega fast

"Því miður er þetta enn eitt jafnteflið, en úr því sem komið var þurfum við að taka stigið," sagði Guðjón Pétur Lýðsson, hetja Blika, við Vísi eftir leik.

"Jafntefli er frekar fúlt á heimavelli. Við ætluðum okkur þrjú stig og fengum til þess færi undir lokin en það verður að hafa þetta jafntefli."

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir, en eftir það viðurkennir miðjumaðurinn að KR hafi verið betri.

"Fyrstu 10-15 mínúturnar vorum við með yfirhöndina og skorum. Svo ganga þeir á lagið, taka sénsa og keyra á okkur. Við vildum halda hreinu fyrir hálfleik sem gekk ekki. Það var samt sterkt að koma til baka eftir að lenda undir í seinni hálfleik og jafna og vera nálægt því að vinna leikinn," sagði Guðjón.

Hann jafnaði leikinn með þrumuskoti strax eftir annað mark KR, en hefði markvörður gestanna átt að gera betur?

"Ég veit það ekki. Boltinn tekur smá flökkt þarna undir lokin, hann kannski hélt þetta væri að koma beint á markið. En þetta var líka bara svo ógeðslega fast. Þetta var í raun óverjandi," sagði Guðjón Pétur og hló.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, var búinn að finna sitt lið síðustu vikur undirbúningstímabilsins og þar var Guðjón Pétur nánast alltaf á bekknum. Eru tvö mörk og stoðsending í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins skilaboð til þjálfarans?

"Ég svara bara inn á vellinum. Mín vinna er að spila fótbolta og ég geri ekkert annað en að sýna hlutina á vellinum. Svo vonandi velur hann mig í liðið," sagði Guðjón Pétur Lýðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×