Viðskipti innlent

Lánshæfismat Landsvirkjunar batnar

ingvar haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar. vísir/anton
Matsfyrirtækið Moody’s hefur breytt horfum á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr stöðugum í jákvæðar.

Samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu endurspegla breyttar horfur þann árangur sem náðst hefur í að styrkja stoðir fyrirtækisins og að bæta fjárhagslegan styrkleika.

Þar er helst horft til sterkrar stöðu á orkumarkaði, hagkvæmrar endurnýjanlegar orka og jafnt sjóðstreymi.

Sjá einnig: Tuttugu milljarðar í arð á ári



Þeir þættir sem koma í veg fyrir enn betri einkunn að svo stöddu eru sagðir vera há skuldsetning, fámennur hópur viðskiptavina, tenging við álverð í raforkusölusamningum, gjaldeyrisáhætta og hlutfall breytilegra vaxta í lánasafninu.

Moody’s bendir þó á að fjárhagsleg staða fari stöðugt batnandi og góður árangur sé að nást í að draga úr fjárhagslegri áhættu. Sérstaklega er minnst á þann árangur sem náðst hefur við að draga úr álverðsáhættu með endursamningi við álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík, með áhættuvarnarsamningum og með samningum við nýja aðila. Þá nefnir Moody’s jákvæð áhrif þeirrar vinnu fyrirtækisins við að draga úr gjaldmiðla- og vaxtaáhættu í lánasafninu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í tilkynningu bætt lánshæfismat vera mikilvægt skref í að bæta aðgengi fyrirtækisins að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. „Þessi breyting kemur í framhaldi af jákvæðri þróun í rekstri og auknum fjárhagslegum styrkleika á undanförnum misserum. Landsvirkjun gerir ráð fyrir að þessi þróun muni halda áfram næstu árin,“ segir Hörður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×