Viðskipti innlent

Vilhjálmur fjárfestir í Sólfari

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjámur Þorsteinsson er á meðal fjárfesta.
Vilhjámur Þorsteinsson er á meðal fjárfesta. vísir/arnþór
Nýtt íslenskt leikjafyrirtæki, Sólfar Studios, lauk í dag hlutafjáraukningu með þátttöku breiðs hóps erlendra og innlendra fjárfesta. Á meðal þeirra sem leggja til hlutafé er fjárfestingafélagið Investa, sem fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum, og Vilhjálmur Þorsteinsson. Vilhjálmur og  Hilmar Gunnarsson frá Investa hafa tekið sæti í stjórn Sólfars.

Um helmingur hlutafjáraukningar Sólfars kemur frá erlendum fjárfestum í Finnlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Þeirra á meðal er finnski sprotasjóðurinn Sisu Game Ventures, fagfjárfestirinn Ville Miettenen sem hefur komið að stofnun fjölmargra hugbúnaðarfyrirtækja í Finnlandi og Isaac Kato, meðstofnandi og fjármálastjóri Verne Global.

Stofnendur Sólfars eru Reynir Harðarson, Kjartan Pierre Emilsson og Þorsteinn Högni Gunnarsson en þeir hafa allir unnið í tölvuleikja og hugbúnaðargeiranum í liðlega 20 ár. Nú síðast hjá CCP þar sem þeir voru í stjórendahóp til margra ára. Reynir var einnig á meðal stofnenda. 

Sólfar einbeitir sér alfarið að þróun og útgáfu leikja og upplifana fyrir sýndarveruleikabúnað á borð við Oculus Rift frá Facebook og Project Morpheus frá Sony, en þessi tól eru væntanleg á markað á komandi ári. Félagið stefnir að markaðssetningu sinna fyrstu verkefna samhliða útgáfu þessa búnaðar, en sýndarveruleiki eða „virtual reality“ er markaður sem margir horfa til sem stærsta vaxtarbrodds tölvuleikjageirans næstu árin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×