Körfubolti

Fyrsti oddaleikur KR-inga frá 2011

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij var með 18 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar í síðasta oddaleik KR.
Pavel Ermolinskij var með 18 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar í síðasta oddaleik KR. Vísir/Vilhelm
Íslands- og deildarmeistarar KR taka í kvöld á móti Njarðvík í fimmta leik liðanna í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta en í boði er sæti í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

KR-liðið hefur unnið báða leikina í DHL-höllinni í einvíginu en Njarðvíkingar hafa jafnað einvígið í tvígang með sigri í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Þetta verður fyrsti oddaleikur KR-liðsins í fjögur eða síðan að liðið vann 105-89 sigur á Keflavík í undanúrslitunum 2011.

KR-liðið var þá sjö stigum undir eftir fyrsta leikhlutann en tók öll völd með því að vinna annan leikhlutann 32-12 og var komið með þrettán stiga forskot í hálfleik, 55-42.

Þrír leikmenn KR-liðsins í dag tóku þátt í þessum leik fyrir fjórum árum en það eru þeir Brynjar Þór Björnsson, Finnur Atli Magnússon og Pavel Ermolinskij.

Brynjar skoraði 34 stig á 32 mínútum í leiknum og Pavel Ermolinskij var með 18 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar.

KR-ingar spiluðu aftur á móti oddaleik í úrslitakeppni á hverju ári frá 2004 til 2011 þar af tvo oddaleiki í úrslitakeppninni 2007 sem og oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn vorið 2009.

KR-ingar hafa unnið fimm af síðustu sjö oddaleikjum sem hafa allir farið fram í DHL-höllinni í Frostaskjóli.

Leikur KR og Njarðvíkur hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Oddaleikir KR-inga síðustu ár:

2004 - 8 liða úrslit Grindavík-KR 89-84

2005 - 8 liða úrslit Snæfell-KR 116-105

2006 - 8 liða úrslit KR-Snæfell 67-64

2007 - 8 liða úrslit KR-ÍR 91-78

2007 - Undanúrslit KR-Snæfell 76-74 (framlengdur)

2008 - 8 liða úrslit KR-ÍR 74-93

2009 - Lokaúrslit KR-Grindavík 84-83

2010 - Undanúrslit KR-Snæfell 83-93

2011 - Undanúrslit KR-Keflavík 105-89




Fleiri fréttir

Sjá meira


×