Erlent

Leiðtogar bresku stjórnarandstöðunnar tókust á í sjónvarpssal

Atli Ísleifsson skrifar
Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, Leanne Wood, leiðtogi Velska þjóðarflokksins, Natalie Bennett, leiðtogi Græningja, Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins og Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, í sjónvarpssal í gærkvöldi.
Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, Leanne Wood, leiðtogi Velska þjóðarflokksins, Natalie Bennett, leiðtogi Græningja, Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins og Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins, í sjónvarpssal í gærkvöldi. Vísir/AFP
Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna í Bretlandi tókust á í síðustu sjónvarpskappræðum fyrir þingkosningarnar á BBC í gærkvöldi.

Til orðaskipta kom milli Ed Miliband, leiðtoga Verkamannaflokksins, og Nicola Sturgeon, leiðtoga Skoska þjóðarflokksins, þar sem Sturgeon sagðist einungis styðja Miliband til að leiða ríkisstjórn ef hann hafnaði frekari aðhaldsaðgerðum ríkisins og ef flokkur hans yrði „betri en Íhaldsmenn“.

David Cameron, forsætisráðherra og leiðtofi Íhaldsflokksins, og Nick Clegg, aðstoðarforsætisráðherra og leiðtogi Frjálslyndra, tóku ekki þátt í kappræðunum.

Í frétt BBC kemur fram að Miliband hafi sagst ætla sér að vinna hreinan meirihluta og að hann myndi ekki mynda bandalag með Skoska þjóðarflokknum.

Kappræðunum lauk með því að Miliband beindi þeim orðum til Cameron forsætisráðherra að þeir myndu tveir mætast í sjónvarpseinvígi. „Ef þú telur að þessar kosningar snúist um forystuhæfileika, þá skaltu mæta mér einn á einn.“

Í skoðanakönnun Daily Mirror sem birt var fljótlega að loknum kappræðunum kom fram að 35 prósent áhorfenda töldu Miliband hafa staðið sig best, en 31 prósent Sturgeon.

Þingkosningar fara fram í Bretlandi þann 7. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×