Viðskipti innlent

Sparisjóður Vestmannaeyja rennur saman við Landsbankann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fyrst um sinn verður starfsemi sparisjóðsins óbreytt og verða öll útibú sjóðsins opnuð á hefðbundnum tíma á morgun.
Fyrst um sinn verður starfsemi sparisjóðsins óbreytt og verða öll útibú sjóðsins opnuð á hefðbundnum tíma á morgun. Vísir/Óskar
Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja tók gildi í dag klukkan 15. Þar með urðu allir starfsmenn sparisjóðsins starfsmenn Landsbankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Þar segir jafnframt að Landsbankinn hafi yfirtekið allar eignir og skuldbindingar Sparisjóðs Vestmannaeyja, þar með talið útlán og innlán viðskiptavina.

Fyrst um sinn verður starfsemi sparisjóðsins óbreytt og verða öll útibú sjóðsins opnuð á hefðbundnum tíma á morgun. Þá eru netbankar aðgengilegir eins og verið hefur.

Nýleg athugun leiddi í ljós að eignasafn Sparisjóðs Vestmannaeyja var ekki eins gott og áður var talið og gaf Fjármálaeftirlitið stjórn sjóðsins frest til klukkan fjögur í gær til að bregðast við stöðunni.

Stjórnin vildi upphaflega ganga til viðræðna við hóp innlendra og erlendra fjárfesta en Fjármálaeftirlitið hafnaði þeirri leið. Því var ákveðið að hefja formlegar viðræður við Landsbankann sem er nú lokið með samruna sjóðsins og bankans.


Tengdar fréttir

Landsbankinn að ganga frá kaupum á Sparisjóð Vestmannaeyja

Allt bendir til þess að Landsbankinn gangi frá kaupum á Sparisjóð Vestmannaeyja á morgun. Formlegar viðræður hófust í gær eftir að frestur sem Fjármálaeftirlitið gaf sparisjóðnum til að bæta eiginfjárstöðu sína rann út.

Þrjú tilboð bárust í Sparisjóð Vestmannaeyja

Landsbankinn, Arionbanki og hópur innlendra og erlendra fjárfesta hafa hver fyrir sig lýst yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja um kaup á sjóðnum. Stjórnin óskaði eftir tilboðum eftir að í ljós kom að sjóðurinn þyrfti að bæta eiginfjárstöðu sína um rúman milljarð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×