Skoðun

Það kostar að taka lán

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Áður en tekið er lán er mikilvægt fyrir lántaka að gera sér grein fyrir öllum þeim kostnaði sem fylgir lántöku. Ekki er nægjanlegt að líta einungis til vaxtaprósentunnar þegar verið er að leita eftir hagstæðasta láninu.  Lántökukostnaður og þau gjöld sem krafist er þegar greitt er af láninu, eins og seðilgjöld, geta verið misjöfn. Í lögum um neytendalán og í reglugerð byggð á þeim er fjallað um  Árlega hlutfallstölu  kostnaðar (ÁHK) þar sem vextir og lántökukostnaður er mældur á ársgrundvelli. Þessi prósentutala má ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum.  Með því að skoða ÁHK er því hægt að sjá hversu hagkvæm lán eru, með tilliti til lántökukostnaðar sem getur verið ærið misjafn milli lánveitenda. Lántökukostnaður getur til að mynda verið það hár að lán sem auglýst er „vaxtalaust“ getur verið óhagkvæmara en lán sem veitt er með vöxtum.

Ef einstaklingur óskar eftir að taka lán að upphæð 2.000.000 kr., eða hærra, þarf lánveitandi að framkvæma mat á greiðslugetu. Ef um er að ræða hjón eða sambýlisfólk er miðað við 4.000.000 kr.  Er mismunandi eftir fjármálafyrirtækjum hver kostnaður er við greiðslumat, en það getur verið á bilinu  3.500 kr. til 8.300 kr. Allir bankarnir krefjast 1-2% af heildarupphæð láns í lántökugjald. Því má velta fyrir sér hvort kostnaður við lántöku eigi að vera misjafn eftir því hve hátt lánið er, eða hvort eðlilegra sé að lántökugjaldið sé föst krónutala sem endurspegli kostnað við lántöku eða misjafn eftir fjölda gjalddaga til að endurspegla kostnað við innheimtu. Fjármálastofnanir krefjast svo einnig að lántaki greiði um 3.000 kr. til um 6.000 kr. fyrir skjalagerð.

Þegar lán hefur verið veitt þarf lántaki einnig að greiða gjald fyrir þinglýsingu í ríkissjóð sem er nú föst krónutala 2.000 kr.

Eftir lántöku þarf skuldari að greiða vexti og eftir atvikum verðbætur, auk greiðslna af höfuðstól láns. Þá er krafist greiðslna fyrir seðilgjald, eða tilkynningagjald, við hvern gjalddaga. Hagkvæmast er seðilgjaldið ef tilkynningin er rafræn og greiðsla af láni skuldfærist sjálfkrafa af reikningi lántakanda.  Ef lántakandi kýs hins vegar að greiða sjálfur á gjalddaga getur seðilgjaldið rúmlega fjórfaldast og orðið jafnvel um 600 kr. á hvern gjalddaga. Það er umhugsunarvert  að það skuli vera við lýði við  greiðslu á lánum, sem og öðrum reikningum, að greiðanda skuli ekki bjóðast sá möguleiki á að borga sína skuld, án þess að vera rukkaður fyrir það sérstaklega.  

Það er mikilvægt að kynna sér vel verðskrár og allan kostnað hjá þeim sem veita lán og bera saman þar sem um verulegan verðmun getur verið að ræða.  




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×